143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[10:47]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Við breytingu á lögum um veiðigjöld sl. sumar var boðað að lögin yrðu endurskoðuð og nýtt frumvarp lagt fram á yfirstandandi þingi. Ráðherra mælti í gær fyrir litlu frumvarpi um breytingu á lögum um veiðigjöld og þar var rætt um skipun samráðshóps um veiðigjöld. Ekkert bólar enn á heildarendurskoðun laganna eins og ráðherra boðaði í fyrrasumar.

Við setningu laga um veiðigjöld árið 2012 lá fyrir að skoða þyrfti sérstakar tegundir eins og úthafsrækju, kolmunna og karfa, tegundir sem féllu ekki inn í reikniformúluna um þorskígildi sem annars er miðað við sökum meiri tilkostnaðar og slakari afkomu við veiðar tiltekinna tegunda.

Hlutverk veiðigjaldsnefndar er meðal annars að ákvarða sérstakt veiðigjald og gera tillögur til ráðherra og einnig um lækkun sérstaks veiðigjalds eða undanþágu frá greiðsluskyldu ef ástæða þykir til. Leggi veiðigjaldsnefnd til við ráðherra að lækka sérstakt veiðigjald eða veita undanþágu frá greiðsluskyldu skal ráðherra leggja fram frumvörp þar að lútandi fyrir Alþingi.

Við umfjöllun atvinnuveganefndar um hlutaskiptingu úthafsrækju hafa komið inn í nefndina tillögur um breytingar á veiðigjöldum. Ef nýtt frumvarp um heildarendurskoðun laga um veiðigjöld er á leiðinni þykir mér það frekar undarlegt og ekki góð vinnubrögð.

Ég vil því leggja fyrir hæstv. ráðherra eftirfarandi spurningar: Hvað líður störfum veiðigjaldsnefndar? Hvenær lítur boðað frumvarp um veiðigjöld dagsins ljós? Telur ráðherra það samræmast lögum um veiðigjöld að atvinnuveganefnd leggi til að fella niður og/eða veita afslætti á almennu eða sérstöku veiðigjaldi án þess að neinar tillögur (Forseti hringir.) liggi fyrir frá veiðigjaldsnefnd þar að lútandi?