143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

breyting á lögum um veiðigjöld.

[10:53]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Varðandi það að atvinnuveganefnd fjalli um tiltekin mál, til að mynda er varða úthafsrækju, tel ég það fullkomlega eðlilegt. Ég veit ekki betur en að hv. þingmaður hafi verið mjög fylgjandi því og talið nauðsynlegt að það yrði fellt niður, ekki bara á yfirstandandi ári heldur skuld þeirra sem hafa stundað veiðarnar frá árinu áður, að það þurfi líka vegna þess að þær veiðar standi ekki undir sér.

Þannig er einnig með fullt af öðrum tegundum. Þær forsendur sem menn hafa sett sér fyrir þegar þeir lögðu á veiðigjöld hafa brostið, markaðsverð hefur lækkað verulega og kostnaður við að sækja einstaka tegundir hefur verið viðurkenndur miklu meiri en menn voru áður með, sem gerir það að verkum að fyrir þjóðarbúið eða fyrirtækin borgar sig ekki að sækja þessar tekjur. Þar af leiðandi verður þjóðarbúið af verulegum tekjum.

Ég tel það fullkomlega eðlilegt að þetta sé skoðað í atvinnuveganefnd. Ég veit að ráðuneytið hefur komið þangað með upplýsingar (LRM: En …?) og ég hef engan heyrt neita því (Forseti hringir.) og hafna þeirri beiðni (Forseti hringir.) að veiðigjaldsnefnd komi fyrir atvinnuveganefnd. Ég tel það fullkomlega eðlilegt. (LRM: Það hefur ekki …)

(Forseti (EKG): Forseti biður um hljóð í þingsalnum.)