143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

endurskoðun kosningalaga.

[10:55]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. 12% eru hærra hlutfall en heimili í vanskilum vegna húsnæðis eða leigu og 23 þús. kjósendur eru fleiri en allir kjósendur í Norðvesturkjördæmi. 12% og 23 þúsund eru sama talan. Hún telur þann fjölda manna sem mætti á kjörstað 27. apríl 2013 og kaus — en á engan fulltrúa á Alþingi Íslendinga. Heilt kjördæmi á engan fulltrúa á Alþingi. Í áliti kjörbréfanefndar segir að mikilvægt sé að hugað verði að almennri endurskoðun laga um kosningar til Alþingis. Enn fremur segir að jafna þurfi mun atkvæðisréttar milli kjördæma og jafna mun milli stjórnmálasamtaka.

Ríkisstjórnin hefur rétt rúm 60% þingsæta, sjö manna meiri hluta. 12% atkvæða eru sjö þingmenn.

Umboð ríkisstjórnarinnar byggist á lögum um skiptingu kjördæma og lögum um talningu atkvæða. Umboð ríkisstjórnarinnar byggist ekki á lýðræðislegri heldur lagalegri niðurstöðu því að ríkisstjórnin hefur minna en 50% greiddra atkvæða á bak við sig. Með þessum minni hluta greiddra atkvæða tekur ríkisstjórnin 100% ákvarðana.

Talning atkvæða var eftir lögum og reglum, sem er gott, en það er samt nauðsynlegt að reglurnar séu sanngjarnar. Niðurstöður síðustu alþingiskosninga sýna greinilega að reglurnar eru ekki sanngjarnar. Því vil ég spyrja:

Hver er staða verkefnis um breytingar á kosningalögum? Hvað er verið að gera til að næstu kosningar verði ekki svona ósanngjarnar, t.d. næstu sveitarstjórnarkosningar?