143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

náttúrupassi og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[11:01]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Í gær fór fram hér í þingsal áhugaverð umræða um almannarétt að náttúruperlum landsins og gjaldtöku einstakra landeigenda sem þegar er hafin, jafnvel að landi sem er í eigu ríkisins. Slík gjaldtaka mun aukast til muna á næstu mánuðum að óbreyttu. Ljóst er að stjórnvöld, bæði núverandi og fyrrverandi, hafa brugðist allt of seint við þessu máli og stefnir í óefni.

Boðað hefur verið frumvarp um svokallaðan náttúrupassa. Ég ætla ekki að leggja mat á þá hugmynd, hún hefur bæði kosti og galla. Það er hins vegar tvennt sem mig langar til að spyrja hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra vegna ræðu hans í gær sem var mjög áhugaverð um þetta mál.

Í fyrsta lagi, ef við gefum okkur að náttúrupassinn komi til framkvæmda, er þá ekki algerlega nauðsynlegt að skylda landeigendur til að gerast aðilar að slíkum passa? Ég sé t.d. ekki að það sé hagkvæmt fyrir landeigendur að Geysi að gerast aðilar að náttúrupassa ef þeir geta komist hjá því og rukkað margfalt hærri upphæð sjálfir. Missir passinn ekki marks ef hann er valfrjáls fyrir þessa aðila?

Í öðru lagi, má ekki treysta því að ráðherra beiti öllum sínum þunga í ríkisstjórn fyrir því að dómstólaleiðin verði farin gagnvart þeim sem eru farnir að rukka inn á ferðamannastaði og ætla að gera það í sumar þannig að þeim verði gert að endurgreiða þær upphæðir sem þeir hafa rukkað?