143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

náttúrupassi og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[11:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. fyrirspyrjanda. Það var áhugaverð umræða hér í gær um náttúrupassann en ekki síður framkvæmdaáætlunina, sem nauðsynlegt er að verði lögð fram til þess að byggja upp, og talsvert var rætt um almannaréttinn líka.

Ég tel að einn af þeim göllum sem eru á núverandi hugmyndum um náttúrupassa sé einmitt um leið einn af kostunum. Það á sem sagt að vera valfrjálst að taka þátt í þessu. Viðkomandi er að kaupa ákveðna vöru og þess vegna er sú leið farin. Það eru augljóslega ákveðnir kostir við það.

Einn af göllunum er sá að þá hljóta menn að vega og meta hvort það sé betra fyrir þá að vera innan kerfisins eða utan. Það sem er mjög mikilvægt í þessu ferli núna er að tryggja að með einhverjum hvötum og samráði við þessa aðila upplifi þeir að það sé áhugavert og nauðsynlegt að allir séu aðilar að þessum passa. Það er svo kannski spurning hvort hægt sé og nauðsynlegt að skylda hann. Í þessari útfærslu held ég að það verði flóknara.

Ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda að langsamlega best væri ef kerfið yrði samræmt, allir kæmu að því, þ.e. allir sem ætluðu sér að fá fjármuni til uppbyggingar í innviðunum tækju þátt og á sama hátt mundu líka allir vera tilbúnir að greiða gjald til slíkrar uppbyggingar ef hægt yrði að tryggja hana með einhverjum hætti.

Eins og menn þekkja þá er þetta á forræði iðnaðar- og viðskiptaráðherra. Ég veit að hún hefur vilja til að finna lausnir til að hvetja alla til að taka þátt í þessu.

Varðandi það hvort ég muni ekki beita allri minni þyngd, sem er nú allnokkur, til að tryggja réttindi ríkisins þá er það auðvitað verkefni ráðherra og framkvæmdarvaldsins á hverjum tíma og ég mun gera það.