143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

náttúrupassi og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[11:05]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svör hans. Varðandi hvata fyrir landeigendur að gerast aðilar að þessum náttúrupassa, auðvitað er það gott ef hægt er að finna slíka hvata. Ég átta mig reyndar ekki alveg á því hverjir þeir ættu að vera vegna þess að yfirleitt er það buddan sem talar mest hjá fólki. Það er alveg ljóst, ef við tökum Geysi sem dæmi, að ef landeigendur þar geta rukkað 300–400 milljónir á ári, jafnvel 500 milljónir, þá sætta þeir sig ekki við að fá einhverjar 100 milljónir út úr náttúrupassa við úthlutun. Það segir sig bara sjálft, auðvitað rukka menn þá frekar sjálfir. Þannig verður þetta á öllum fjölförnum ferðamannastöðum í kringum landið. Það er augljóst. Það hlýtur að þurfa að sníða þennan agnúa af þeim hugmyndum sem eru í gangi.