143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

náttúrupassi og gjaldtaka á ferðamannastöðum.

[11:06]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hefur sagt eru þær hugmyndir sem núna eru uppi til samráðs. Fleiri hugmyndir hafa komið upp. Ég veit að það er mikill vilji hjá hæstv. ráðherra að finna skynsömustu leiðina.

Það sem hv. þingmaður bendir á er augljóslega hættan og þar með gallinn á þessari leið. Ef stórir aðilar velja að vera ekki aðilar að náttúrupassanum vegna þess að þeir telja hagsmunum sínum betur borgið með öðrum hætti þá munum við upplifa það sem við horfum upp á núna í einhverjum mæli. Ég tel það vera neikvætt og ég held að við eigum að leita allra leiða til að finna skynsömustu leiðina.

Ég vil að síðustu árétta að það að velta fyrir okkur mismunandi leiðum sem margir hafa bent á má ekki verða til þess að þetta mál verði áfram í uppnámi eins og verið hefur í áratugi án þess að menn taki á því. Allir eru sammála um að skynsamleg gjaldtaka sé þegar ferðamaður eða ferðaþjónusta greiði gjald til uppbyggingar náttúrunnar. Allir eru líka sammála um að það (Forseti hringir.) þurfi að leggja framkvæmdaáætlun til uppbyggingar innviðum í íslenskri náttúru (Forseti hringir.) og að því eigum við að stefna þrátt fyrir allt.