143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:30]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Á árinu 2011 var sams konar staða uppi og þá ákvað Bandaríkjaforseti að beita diplómatískum og pólitískum þrýstingi til að fá íslensk stjórnvöld til að stöðva veiðar á langreyðum. Nú er staðan hins vegar alvarlegri en áður vegna þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra gaf í desember sl. út nýjan fimm ára veiðikvóta á allt að 770 langreyðum. Til viðbótar bárust núna í morgun fréttir þess efnis að fullfermt flutningaskip af langreyðarkjöti frá Hval með um 2 þús. tonn sé við það að leggja úr höfn í Hafnarfirði sem leið liggur til Japans.

Í ljósi aðstæðna sem uppi eru í samskiptum við Bandaríkjamenn um hvalveiðar Íslendinga hlýt ég að ítreka og spyrja hæstv. ráðherra: Var honum kunnugt um þennan fyrirhugaða stórútflutning á langreyðarkjöti? Hvaða áhrif telur hann að þessi útflutningur kunni að hafa á ákvörðun Bandaríkjastjórnar? Telur hann útflutninginn heppilegan á þessum tímapunkti? Hvaða viðbrögðum býst hann þá við frá öðrum ríkjum eða alþjóðlegum stofnunum og samtökum?

Spurningin er auðvitað: Erum við ekki að fórna meiri hagsmunum fyrir minni?