143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa áhugaverðu fyrirspurn. Forseti Íslands er eins og allir vita reyndur og áhrifamikill maður víða. (ÖS: Ríki í ríkinu.) Hann fer víða og talar röddu Íslands. Sumir kunna að segja að misvísandi skilaboð fari stundum milli forseta og utanríkisstefnu landsins. Ég held að það sé alveg skýrt að umboð til að móta utanríkisstefnu er hjá ríkisstjórninni, ekki forseta Íslands. Á það hefur verið bent, m.a. af þeim sem hér stendur. Forseti Íslands fer ekki með utanríkismál þjóðarinnar.

Forsetinn hefur að sjálfsögðu leyfi til að tjá sig, það hef ég sagt margoft og segi enn. Oft og tíðum erum við sammála, oft og tíðum er ég undrandi á stað og stund, að velja ákveðnar ræður eða orð, en forsetinn getur að sjálfsögðu tjáð sig. Ég tel líka að við getum ekki gleymt því að forseti Íslands talar, að mínu viti, mjög oft fyrir góðum málstað fyrir hönd Íslendinga, (Forseti hringir.) opnar dyr að ýmsu en hann er ekki hafinn yfir (Forseti hringir.) gagnrýni.