143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:38]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er ríkisstjórnin sem fer með utanríkismál, það er rétt, og auðvitað á það að vera þannig. Mig langar þess vegna að halda mig á sömu slóðum og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson. Ég veit að íslenska utanríkisþjónustan er mjög upptekin af því núna að fást við mjög erfiðar deilur millum Rússa og Úkraínumanna. Þetta eru viðkvæmar deilur og við höfum ákveðið að staðsetja okkur með Úkraínumönnum þannig að við erum tilbúin, eins og sagt var áðan, á vettvangi alþjóðasamstarfs að láta að okkur kveða þeim til stuðnings gegn, óeðlilegum þvingunum Rússa. Margt smátt gerir eitt stórt, segir ráðherra.

Hver er þá afstaða hæstv. ráðherra til þess sem forseti Íslands gerði á fundi um norðurskautsmál í gær þar sem hann hirti norskan aðstoðarráðherra fyrir það að taka upp þessa deilu við Rússa og gagnrýna hana sem hluta af utanríkispólitík Norðmanna? Ég vil fá svar við spurningunni: (Forseti hringir.) Hvernig hyggst hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) taka á þessu og hver er skoðun hans á því sem þarna gerðist?