143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[11:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég hygg að það sé rétt hjá þingmanninum að í skýrslunni sé lítið fjallað um það málefni sem hann nefndi, friðhelgi heimilisins eða einkalífsins þegar kemur að hinum netvædda heimi. Eflaust má finna ýmislegt annað sem er ekki fjallað um í skýrslunni, t.d. á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Mér finnst þetta mjög áhugaverður punktur sem þingmaðurinn nefnir og hvet hann og þá sem eru með þessi mál á sínum snærum í þinginu til að fylgja þessu eftir með fyrirspurnum og koma skoðunum sínum á framfæri.

Ég tel þó að sæmileg hugsun liggi einhvers staðar þarna hjá okkur þegar við ræðum til dæmis þjóðaröryggi og varnir Íslands þegar kemur að netógnum og netöryggi. Þar þurfum við að mínu viti mjög mikið að taka okkur á og bæta okkur, ég held að þar séum við svakalega, svo ég noti bara það orð, aftarlega á merinni. Yfirgripsmikill þáttur í þjóðaröryggisstefnu Íslands mun einmitt snúa að netvörnum.