143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:03]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðilega ræðu. Þingmaðurinn talar eðlilega af mikilli reynslu þegar kemur að utanríkismálum.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að menn voru sammála um að láta þá vinnu sem unnin var undir verkstjórn hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur ná fram að ganga þegar ljóst var að við náðum ekki að klára þetta mál á síðasta þingi. Þá fannst þeim sem hér stendur ekkert vit í að taka upp alla þá góðu vinnu enda hafði henni verið vel stýrt og í þokkalega góðri sátt þó að margir kæmu með einhverjar bókanir og slíkt sem lýsti að sjálfsögðu þeirra nálgun á verkefnið.

Mig langar að mótmæla því sem ég las út úr orðum hv. þingmanns, og hann leiðréttir mig þá ef það er misskilningur hjá mér, að menn hefðu staðið sig illa við að halda á lofti hagsmunum þjóðarinnar í makríldeilunni. Þar gerðu menn góða hluti. Menn héldu á því máli af festu og það verður ekki hægt að saka okkar ágætu embættismenn eða ráðuneytin um að hafa tekið einhverjum vettlingatökum á því máli. Þarna var einfaldlega farið á bak við okkur undir forustu Evrópusambandsins. Það gleymist gjarnan í þeim ræðum sem hér eru haldnar.

Mig langar svo að spyrja hv. þingmann, af því að þingmaðurinn talaði um að friðurinn hefði verið rofinn með tillögu utanríkisráðherra um að draga til baka umsókn að Evrópusambandinu, hvort hann túlki það þannig að 2009 þegar farið var í viðræður hafi ríkt hér mikill friður, hamingja og ró um þá vegferð, hvort það hafi ekki einmitt verið þá sem friðurinn var rofinn gagnvart Evrópusambandinu.

Síðan vil ég bara segja það hér í þessum stól að ég vona svo sannarlega að við verðum öll í þeim báti að haga málflutningi okkar og ákvörðunum og slíku (Forseti hringir.) þannig að eitthvað sem við segjum eða gerum skaði ekki hagsmuni okkar þegar kemur að gjaldeyrishöftunum og það (Forseti hringir.) verði ekki til þess að við komum fram með yfirlýsingar eða ályktanir sem túlka má (Forseti hringir.) þannig að verið sé að grafa með einhverjum hætti undan þeirri (Forseti hringir.) undanþágu sem við erum með í dag.