143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýr svör við báðum þeim spurningum sem ég ítrekaði við hann. Það skiptir mig máli að heyra það frá hæstv. ráðherra að hann viti a.m.k. ekki til þess að nokkrir skriflegir samningar um þróunarsamvinnu sem Ísland gekkst undir á síðasta kjörtímabili hafi verið rofnir þrátt fyrir að fjárráð yrðu naumari en þingið ætlaði þegar stefnan var útfærð.

Að því er varðar stækkun Atlantshafsbandalagsins þá er það auðvitað flókið og vandasamt mál. Þar eru þrjú ríki undir og er alveg ljóst að eitt þeirra mun skapa mikla togstreitu. Ég sagði í ræðu minni áðan við ættum að taka upp þá stefnu að berjast fyrir því að tvö þeirra yrðu tekin inn. Ég er þeirrar skoðunar að miðað við þau bitlausu svör sem hafa komið frá Vesturlöndum gagnvart átökunum um Úkraínu verði með einhverjum hætti að draga línu í sandinn. Þarna getum við lagt (Forseti hringir.) okkar af mörkum, þarna skiptum við máli. Við erum stofnaðilar og það er hlustað á okkur þarna. (Forseti hringir.) Þarna getum við, herra forseti, lagt okkar lóð á vogarskálar annarra smáþjóða sem búa við miklu minna öryggi en við.