143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil segja það skýrt að þó að ég telji að forseti Íslands hafi oft leikið á línunni í tíð minni sem utanríkisráðherra tel ég að fram að því að ég kvaddi það góða embætti þá hafi hann aldrei beinlínis farið fram af því, en margt sem hann sagði orkaði tvímælis.

Ég held hins vegar að í ljósi stöðu forseta Íslands hafi ríkisstjórn eiginlega engin tæki ef hún kýs eða telur nauðsynlegt að koma einhverjum skikk á forseta Íslands, hver sem hann er. Hann hefur málfrelsi. Stjórnarskráin gefur honum ákaflega vítt starfssvið og hann getur nánast túlkað það eins og hann vill. Jafnvel þó að ríkisstjórn kæmist að því að forsetinn talaði handan við þá línu sem hún drægi tel ég að engin tæki séu til til þess að kippa honum aftur inn fyrir.

Varðandi það sem hv. þingmaður sagði um Evrópusambandið og afstöðu mína þá vekur það einlægt undrun mína að þingmaður, sem er jafn greindur og upplýstur og hv. þm. Birgir Ármannsson, skuli sífellt hjakka og vera grjótfastur í sama gamla farinu. Ég ætla mér hins vegar ekki að vinna það kraftaverk að kippa honum upp úr því. Ég er hins vegar sammála honum um ýmislegt annað og það liggur fyrir að við höfum svipaða afstöðu til gildis Atlantshafsbandalagsins til þess að vera skjól fyrir smáar þjóðir sem eiga erfitt með að verja sig.

Ég tók hins vegar eftir því að hv. þingmaður sagði að í ljósi atburðanna í Úkraínu ætti Atlantshafsbandalagið eftir atvikum að hleypa inn nýjum þjóðum. Mig langar bara að spyrja hv. þingmann til þess að taka af öll tvímæli: Telur hann ekki að það sé algjört svarta lágmark að það verði stækkun á næsta leiðtogafundi og um meira en bara Makedóníu? Er hann ekki sammála mér um það? Ef það verður ekki er ég ansi (Forseti hringir.) hræddur um að það sé búið að draga tennurnar líka úr þeim dreka varnar og öryggis.