143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski ekki alveg rétt eftir mér haft að ég hafi átt í góðu samstarfi við forseta Íslands á síðasta kjörtímabili, að minnsta kosti ekki allt kjörtímabilið. Ég rifja það upp, af því að hv. þingmaður er nú gamall fréttamaður og fylgist vel með fréttum, að töluverðar fréttir urðu af því þegar ég neitaði að fylgja honum í opinbera heimsókn til Indlands eins og utanríkisráðherrar jafnan gera og missti það út úr mér, sem ég vitaskuld átti ekki að gera og sé eftir, að einhverjir aðrir en ég gætu orðið töskuberar forseta Íslands í þeirri ferð.

Það samráð sem var millum forsetaembættisins og utanríkisráðherra í minni tíð var yfirleitt þannig að forsetaembættið óskaði eftir afstöðu í tilteknum málum, fráleitt öllum, sem forseti Íslands kaus að tjá sig um. En það er alla vega ljóst að í öllum meginmálum var forsetaembættinu kunnugt um afstöðu ráðuneytisins. Ég átti sömuleiðis, eins og fram hefur komið í bókum, margvísleg og mörg samtöl við forseta Íslands þar sem við fórum yfir alla skapaða hluti; við ræddum kannski mest utanríkismál ef frá var talið heimilisböl á einstaka pólitísku heimili.

Það er síðan algjörlega forsetanum í sjálfsvald sett hvernig hann kýs að haga máli sínu. Ég hef lagt á það áherslu hér, herra forseti, að það sé minn skilningur, og ég held fleiri, að í fyrsta lagi sé forsetinn ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum og í öðru lagi hafi hann málfrelsi. Hann getur sagt hvað eina sem hann vill, en ríkisstjórnin hefur, eins og ég skil stjórnarskrána, nánast engin tæki önnur en þau kannski að bóka mótmæli sín á ríkisráðsfundum, sem yfirleitt eru nú svona skrautfundir. Það er það eina sem hún getur gert. Ríkisstjórn getur ekki sagt forseta Íslands að skipta um skoðun (Forseti hringir.) eða þegja o.s.frv.

Þetta er alla vega mín afstaða, þannig að ég er giska snauður um ráð handa hæstv. utanríkisráðherra í þessu, (Forseti hringir.) sem er kannski að verða hans heimilisböl.