143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:23]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í þeim umræðum sem hafa farið fram hér og utan þings, um nauðsyn þess að breyta stjórnarskrá, hefur þessi þáttur einmitt verið undir. Ég rifja það upp að þetta var eitt af því sem einstakir flokkar lögðu megináherslu á þegar gert var áhlaup að því að breyta stjórnarskránni á fyrsta áratug þessarar aldar. Á síðasta kjörtímabili var þetta sömuleiðis eitt af því sem var rætt.

Ég held af reynslunni að mikil þörf væri á því að hafa þetta miklu afmarkaðra, að hafa það algjörlega skýrt með hvaða hætti forsetinn getur tjáð sig og hvar. Það er stund og staður fyrir allt, allt hefur pólitíska merkingu og það á að vera ríkisstjórnin sem hefur síðasta orð um það hvernig þeir sem eru fulltrúar Íslands og lýðveldisins tjá sig á erlendri grundu og heima.