143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:47]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er þekkt í fræðunum í alþjóðastjórnmálum að viss mótsögn getur verið á milli sjálfsákvörðunarréttarins annars vegar og fullveldisins hins vegar. Það er ekki auðvelt að taka á þeirri mótsögn sem þarna getur komið upp, annars vegar að virða fullveldi og landamærahelgi þjóða eins og hún hefur verið viðurkennd og dregin upp og segja hins vegar að við virðum sjálfsákvörðunarrétt þjóða því að í einstökum ríkjum geta verið þjóðir sem vilja öðlast sjálfstæði og verða fullvalda og geta þess vegna lent í átökum við ríkið þar sem þær búa.

Ég er ekkert endilega að draga þetta upp í tilfelli Úkraínu eða Krímskaga sérstaklega en það er þó dæmi um það og það eru fleiri slík dæmi. Ég hef nefnt í umræðu um þetta mál Suður-Ossetíu. Abkasía er kannski aðeins öðruvísi dæmi sem er ekki alveg hægt að bera saman við Suður-Ossetíu af ýmsum ástæðum. Það mætti nefna Katalóníu á Spáni eða Baskahéruð. Það mætti nefna Færeyjar ef Færeyingar vildu slíta sig frá Danmörku og lentu í ágreiningi við Danmörku um það. Hver yrði okkar afstaða þar? Yrði það landamærahelgi Danmerkur eða sjálfsákvörðunarréttur færeysku þjóðarinnar? Austur-Tímor er ekkert mjög gamalt dæmi þar sem svona mál kom upp. Það er ekki auðvelt mál að glíma við þetta. Við getum hæglega lent í mótsögn við sjálf okkur. Ég tel hins vegar ekkert óeðlilegt að menn segi sem svo, og nú ætla ég helst að hafa þetta abstrakt, að rússneski (Forseti hringir.) minni hlutinn, hvort sem hann er á Krímskaga eða annars staðar, vilji fá að ráða sínum málum sjálfur en hann verður að gera það á grundvelli (Forseti hringir.) alþjóðalaga. Það er alveg ljóst að innlimun Krímskaga í Rússland er brot á alþjóðalögum að því er varðar sjálfsákvörðunarrétt, hvað sem öðru líður.