143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[12:54]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, eins og hv. þm. Árni Þór Sigurðsson sagði, akkúrat vegna þess að Norður-Kórea er algerlega lokað land vitum við ekki hvað þar fram fer. Líklega má draga þá ályktun að hlutirnir þar séu mun verri en við gerum okkur nokkra hugmynd um. Vegna þess að ég þekki það af eigin reynslu að þingmaðurinn hefur góða innsýn í málefni Rússlands, vegna þess að hann hefur dvalið þar og starfað eins og hann sagði, langar mig að spyrja hann: Hvað telur þú að sé fram undan? Hræðistu ekki þessa útþenslustefnu Rússa?

Þá er ég að hugsa um öll lýðveldin sem tilheyrðu gömlu Sovétríkjunum en kannski sérstaklega löndin næst okkur, Eystrasaltslöndin sem voru okkur Íslendingum sérstaklega kær og við lögðum hönd á plóg þegar þau börðust fyrir sjálfstæði sínu. Verður rússneski björninn kominn með hramma sína þangað inn innan skamms með sömu rökum og á Krímskaga?