143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[13:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að formaður Sjálfstæðisflokksins og raunar fleiri úr röðum ríkisstjórnarflokkanna hafa opnað á að það gætu verið ýmsar leiðir til að leiða þetta mál til lykta. Það væri með öðrum orðum ekki slegið í gadda, eins og sumir þingmenn mundu orða það, að niðurstaðan yrði nákvæmlega sú sem birtist í orðalagi þeirrar tillögu sem utanríkisráðherra lagði hér fram fyrir nokkrum vikum.

Varðandi spurningu um orðalag í þjóðaratkvæðagreiðslu þá tel ég að við séum ekki enn komin á þann stað að ræða það. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að eðlilegast væri í ljósi allra aðstæðna að spurt yrði hvort kjósendur í þjóðaratkvæðagreiðslu styddu þá niðurstöðu þessarar ríkisstjórnar að afturkalla umsóknina frá 2009. Það væri sú spurning sem mér þætti eiga best við í þessu sambandi (Forseti hringir.) og þegar þingmeirihluti væri kominn fyrir því að halda áfram viðræðum væri eðlilegt að (Forseti hringir.) spurt yrði hvort ætti að fara í viðræður (Forseti hringir.) aftur eða halda þeim áfram eða hvernig sem (Forseti hringir.) menn vildu orða það.