143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[13:53]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara í hártoganir við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur. Sú stefna sem Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti á síðasta kjörtímabili var á þá leið að hætta viðræðum og fara í þjóðaratkvæðagreiðslu ef ætlunin væri að halda áfram. (KaJúl: Ekki í kosningabæklingnum.) — Hvaða bæklingi? (Gripið fram í.) Ég var í framboði fyrir þennan flokk, ég hef ekki séð þennan bækling en ef þú hefur hann sýndu mér hann þá.

Burt séð frá því þá vil ég í staðinn fyrir að fara í skæklatog við hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur segja að af hálfu forustumanna ríkisstjórnarinnar hefur verið opnað á það að reyna að ná einhvers konar niðurstöðu í þetta mál, einhvers konar samkomulagi. Það hefur verið opnað tiltölulega mikið á það. Menn hafa ekki gefið sér niðurstöðuna. Ég verð að segja að viðbrögð margra úr stjórnarandstöðunni hafa verið jákvæð en Samfylkingin hefur hins vegar keppst við að loka öllum dyrum í sambandi við samkomulag í þessum efnum með stóryrðum og yfirlýsingum, (Forseti hringir.) skilyrðum fyrir fram og þess háttar. Ég hef það einhvern veginn (Forseti hringir.) á tilfinningunni að Samfylkingin hafi ekki áhuga á því að finna sameiginlega niðurstöðu í þessu máli.