143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:02]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka svarið og hvet bara til þess að hv. þingmaður fái meiri ræðutíma til að tala um þetta. Ég þakka fyrir það þegar hv. þingmaður kemur hingað og heldur áfram með svar sitt því að mér finnst það mjög áhugavert.

En til að hafa spurninguna skýra þá er ég að spyrja sérstaklega um það hvernig hv. þingmaður sjái fyrir sér að við fáum sömu völd innan Evrópusambandsins með Evrópska efnahagssvæðinu til að hafa áhrif á reglugerðir og reglurnar sem þaðan koma til jafns við það sem við fengjum ef við værum í Evrópusambandinu sem væru þrír, fjórir eða fimm þingmenn á Evrópuþinginu. Ég sé ekki alveg fyrir mér hvernig það á að gerast með EES nema það verði hreinlega endursamið og þá erum við komin út í svolítið stóran pakka, þá erum við í raun og veru komin í umræðu af sambærilegri stærð og í Evrópusambandinu. Ég er svolítið að velta fyrir mér framtíðarsýn hv. þingmanns í þeim efnum.