143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:03]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Til að reyna að svara þessari spurningu í stuttu máli vil ég í fyrsta lagi leggja áherslu á að það er eðlismunur, ekki bara stigsmunur heldur eðlismunur, á því fullveldisframsali sem felst annars vegar í aðild að Evrópska efnahagssvæðinu og hins vegar að Evrópusambandinu. Það er bæði fræðilega og raunverulega mjög mikill munur á því hvort við erum aðilar að samningi eins og Evrópska efnahagssvæðinu, sem í grunninn er þjóðréttarlegur samningur, eða hvort við erum aðili að ríkjasambandi sem hefur í mörgum efnum yfirþjóðlegt vald. Stóri munurinn felst í því að í mörgum tilvikum hafi reglusetning og lagagerð á vegum Evrópusambandsins og ákvarðanir samevrópskra stjórnvalda bein réttaráhrif í aðildarríkjunum án nokkurrar aðkomu innlendra stofnana. Í því er gríðarlegur munur.

Varðandi áhrifin þá geri ég mér grein fyrir því að þau geta verið takmörkuð við núverandi aðstæður. Ég held hins vegar að þau verði líka mjög takmörkuð jafnvel þó við yrðum aðilar að Evrópusambandinu.