143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Meginatriðið í þeirri hugmynd að rétt sé að innlendir aðilar hafi löggjafarvaldið, framkvæmdarvaldið og dómsvaldið er það að þeir standa frammi fyrir kjósendum sínum eða umbjóðendum með reglulegu millibili og þurfa að bera ábyrgð á gerðum sínum. Með því að færa vald til yfirþjóðlegra stofnana myndast bæði raunverulega og líka fræðilega mjög mikið rof í því ábyrgðarferli, í því ábyrgðarsamhengi.

Í mörgum efnum er það svo að það tjóir lítt fyrir kjósendur í einstökum löndum að ætla að halda stjórnmálamönnum sínum ábyrgum vegna gerða sem gerðar eru á sameiginlegum vettvangi. Þar munar þó töluvert miklu, sem er fyrirkomulagið á hinu Evrópska efnahagssvæði, að innlendir stjórnmálamenn, ráðherrar eða þingmenn geta sett hælinn niður og stoppað ferli sem á sér rætur hjá Evrópusambandinu en möguleikarnir til þess eru miklu síðri hjá þeim sem eru fullir aðilar að Evrópusambandinu.