143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:07]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég var að reyna að segja, og gerði kannski ekki nægilega skýrt, er það að þegar vald liggur hjá alþjóðlegri eða yfirþjóðlegri stofnun þá er erfiðara fyrir hinn almenna kjósanda í viðkomandi landi að halda stjórnmálamönnunum til ábyrgðar vegna þeirra ákvarðana sem eru teknar. Þetta er vandamál sem er mjög mikið rætt innan Evrópusambandsins og hefur verið mikið rætt á undanförnum árum án þess að menn hafi fundið mjög skilvirkar lausnir.

Umræður um lýðræðishalla innan Evrópusambandsins, umræður um tengslaleysi milli stofnana Evrópusambandsins og kjósenda í aðildarlöndunum, eru stöðugt í gangi og á þeim fundum á evrópskum vettvangi sem ég hef setið á undanförnum missirum sem þingmaður þá er þetta aðalumræðuefnið en lausnirnar hafa ekki komið fram. Ein lausnin var sú að auka völd Evrópuþingsins. Það virðist ekki skila sér nema með mjög takmörkuðum hætti og virðist ekki höfða til kjósenda í Evrópusambandinu því að kosningaþátttaka þar er víða skelfilega lítil.