143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Það er margt mjög áhugavert í þessari skýrslu, margt sem er þess virði að ræða og hefur verið rætt en mig langar að reyna að fókusa aðeins meira á það sem er ekki í henni, að mörgu leyti skiljanlega, en helst langar mig til að ræða ýmis málefni sem við lítum ekki enn á sem utanríkismál, heldur jafnvel innanríkismál. Stundum er hreinlega ekki svo auðvelt að sjá hvort á við, hvort um sé að ræða innanríkismál eða utanríkismál. Ég vík nánar að því seinna.

Bara til að opna ræðu mína á einhverju sem ég get klárað hratt vil ég minna á internetið. Það er mikilvægt að hafa innviðina á því rosalega góða þannig að við höfum sterk samskipti og góð viðskipti og allt þetta. Ég tel mig ekki þurfa að rökstyðja það öllu meira enda kemur skýrslan alveg ágætlega inn á það að mínu mati.

Heimurinn verður sífellt alþjóðlegri. Sumir segja að heimurinn verði minni, aðrir segja að hann verði stærri. Ég er í stærri hópnum sjálfur, ég vil meina að heimurinn verði stærri en það fer svolítið eftir því hvernig maður lítur á það, hvort maður lítur á hann innan frá eða utan.

Samhliða þeirri þróun verða tengsl fólks innan og utan Íslands óhjákvæmilega sífellt nánari. Fólk kynnist hvert öðru á netinu með bættum samskiptum og þegar við tölum um netið skulum við athuga að við erum í raun bara að tala um samskipti. Við erum að tala um símtöl og jafnvel heimsóknir. Fólk hittist í mynd og talar saman. Ég á marga vini sem ég hef aldrei hitt í eigin persónu en ég hef séð þau. Ég hef hlegið með þeim, jafnvel grátið með þeim, talað við þau á netinu lengi vel um alvarleg málefni, stundum ekki svo alvarleg málefni. Þetta eru vinir mínir, þetta er fólk sem ég þekki, fólk sem er mér náið, en ef þau ætla að heimsækja Ísland og vera hér lengur en í þrjá mánuði, þá sem túristar, er það svolítið vandamál og einnig ef ég ætla til þeirra heimkynna nema auðvitað ef um er að ræða EES-borgara, þá eru hlutirnir auðveldari.

Þetta er dæmi um þá þróun sem heimurinn er að ganga í gegnum og sú þróun er að mínu mati í grundvallaratriðum góð. Ég held að hún sé að flestra mati góð, sem betur fer. En hún þýðir að við þurfum að opna okkur, sem land, sem þjóð, sem ríki. Við þurfum að taka á móti slíkum breytingum opnum örmum. Við eigum ekki að standa alltaf fast á okkar eyju og hugsa: Ísland skal vera svona og Ísland skal vera hitt eins og það sé einhver ægileg mótsögn við alla hina. Það er ekki þannig og við eigum ekki að líta þannig á.

Þessu fylgir að við þurfum kannski að endurhugsa ýmsa hluti sem við gerum og viljum gera og þá verða skilin milli utanríkismála og innanríkismála svolítið óljós, a.m.k. fyrir mér. Sem dæmi má nefna lög um útlendinga. Það er ekki augljóst hvort það er innanríkismál, það að ég megi hitta vini mína þegar þeir koma hingað, eða hvort það teljist til utanríkismála. Það á ekkert skylt við fiskveiðideilur við Noreg eða Færeyjar, svo mikið er víst. Skilin eru ekki alveg fullkomlega ljós fyrir mér, ég tala nú ekki um þegar við erum að tala um hluti sem við notum öll daglega, svo sem Facebook og Google og aðra þjónustu á netinu. Þá eigum við oft í samskiptum, Íslendingur á Íslandi við annan Íslending á Íslandi með miðli sem tilheyrir bandarískri lögsögu. Þá er vandinn orðinn aðeins skrýtnari en var í gamla daga.

Í gamla daga hringdi maður bara og maður gat bara flett upp í íslenskum lögum og vitað með nokkurri vissu hver og hvenær væri verið að hlera, það væri bara íslenska lögreglan sem hefur sennilega ekki mikinn áhuga á þvaðrinu í Íslendingum upp til hópa og þá vissulega ekki nema þeir hefðu þó haft fyrir því að fá leitarheimild. Núna er þetta bara ekki ljóst. Ef ég tala við vin minn, jafnvel þótt hann sé á Íslandi, er ekkert ljóst að öll okkar samskipti fari í gegnum íslenska lögsögu. Þetta breytir hlutunum og það mjög mikið. En þetta er allt saman hluti af þeirri þróun sem á sér stað að heimurinn er að verða alþjóðlegri.

Þar komum við einmitt inn á þjóðarhagsmuni og almannaöryggi. Mig langar aðeins að fjalla um almannaöryggi sem er mjög áhugaverður málaflokkur, sérstaklega vegna þess að Ísland hefur alltaf verið svolítið peð í þeim málum í stóra samhenginu, í fyrsta lagi vegna þess að við höfum ekki her og í öðru lagi vegna þess að við erum svo fámenn. Þetta er lítið land, við höfum ekki átt neinar teljandi auðlindir, a.m.k. ekki nógu miklar til að það borgi sig að ráðast hér inn í alvöruvaldabrölti. Það eru aðallega Miðausturlönd. Við höfum verið heppin með það en það þýðir kannski að við höfum ekki tamið okkur ákveðinn hernaðarlegan hugsunarhátt sem við þurfum kannski núna aðeins að temja okkur, þá vonandi á 21. aldar forsendum. Við þurfum samt að gera það vegna þess að internetið hefur ekki eðlislæg landamæri. Við erum á netinu núna alveg jafn nálægt Marokkó og Bretlandi. Þegar samskipti okkar og flest sem við gerum í okkar daglega lífi varðar netið með einhverjum hætti skiptir þetta máli. Þetta eru ekki lengur fjarlæg lönd. Þau eru miklu nær okkur þegar kemur að netinu. Því meira sem við gerum á netinu, því meira varða þessir þættir innanríkismál. Því erfiðara verður að sjá hvort við ætlum að kalla þau utanríkismál eða innanríkismál.

Gott dæmi um þetta er víðfrægar njósnir Bandaríkjamanna á hinni ýmsu þjónustu á netinu. Bandaríkjamenn eru mjög tæknivæddir með mjög vel fjármagnað batterí til að fylgjast með og gera og græja en þeir eru ekki eina þjóðin. Við erum kannski helst hneyksluð á Bandaríkjunum vegna þess að við ætlumst til þess af þeim að þeir virði borgararéttindi en það eru margar þjóðir í heiminum sem við getum ekki ætlast til þess að geri það. Við mundum ekki ætlast til þess að Kína mundi góðfúslega virða friðhelgi einkalífsins á Íslandi. Okkur dytti það ekki í hug [Truflun í þingsal.] eða ég vona að minnsta kosti ekki.

Netið truflar þingræðið, virðulegi forseti, en ég ætla að láta eiga sig að kvarta undan því. Ég tek þessari þróun opnum örmum eins og hinum. (Gripið fram í: Þetta er internetið.) Þetta er internetið. Maður verður að fyrirgefa, hvað annað á maður að gera?

Friðhelgi einkalífsins, tjáningarfrelsi, grundvallarborgararéttindi eru komin á þann stað í tækniþróun að við þurfum að spyrja okkur í miklu stærra samhengi hvernig við ætlum að haga hlutunum. Það eru óhjákvæmilega líka utanríkismál, sérstaklega þegar kemur að friðhelginni. Nú er friðhelgi einkalífsins meðal borgararéttinda sem vér píratar, og Íslendingar almennt vil ég trúa, tökum mjög nærri okkur og finnst mjög mikilvægt. En það er sama spurning og þegar kemur að öryggismálum ríkisins.

Við getum tekið dæmi af þingmönnum. Við notum tölvupóst til samskipta. Ég er viss um að flestir þingmenn nota Facebook til samskipta við aðra þingmenn, jafnvel um mál sem þeir kæra sig ekkert endilega um að Þjóðverjar, Kínverjar, Rússar, Bandaríkjamenn eða Norðmenn og Færeyingar ef út í það er farið læsu. (Gripið fram í.) Þetta allt saman skiptir máli og er því í raun og veru ákveðin utanríkismál og þjóðaröryggismál og varðar líka borgararéttindin alveg eins og það varðar þjóðaröryggi.

En vel á minnst, í þessari skýrslu er einmitt agnarögn fjallað um svokallaða gagnageymd sem er ágætisdæmi. Það er á bls. 38 í skýrslunni, liður 4.3.6., þar er nefnd tilskipun um varðveislu gagna. Þetta mál er í gangi núna. Við píratar munum leggja fram þingmál um að afnema þetta á Íslandi og vonum að það gangi vel. Núna eru tvö mál fyrir Evrópudómstólnum sem varða þessa tilskipun en hún varðar það að geyma gögn án sérstakrar leitarheimildar, án þess að það sé nein sérstök rannsókn í gangi eða eitthvað því um líkt, eins og maður hefði búist við þegar verið er að safna persónugögnum.

Þetta er lítið en gott dæmi um þá þróun sem á sér stað. Með tölvutækninni og internetinu er auðveldara að gera allt, þar á meðal brjóta mannréttindi. Það er mjög freistandi þegar ríki sjá sér einhvern hag í því, hvort sem það er til að spara peninga, auka eftirlit, tryggja þjóðaröryggi eða eitthvað því um líkt að nota tæknina, rétt aðeins að safna þessum gögnum hér og þar og nota þau svona hinsegin, keyra saman skrár og guð má vita hvað. Þess vegna er ofboðslega mikilvægt, bæði innan lands og erlendis, að við höfum alltaf í huga þessi gömlu, góðu vestrænu gildi þegar við tökum ákvarðanir á erlendum vettvangi um það sem virðist vera utanríkismál.

Það er hægt að líta á utanríkismál sem þau mál sem varða hagsmuni Íslands út á við, þ.e. eins og hv. þm. Óttarr Proppé fór með áðan. Hann var með ágætisútlistun á því hvernig hagsmunir geta varðað mismunandi hópa. Almennt mundi maður halda að utanríkismál vörðuðu hluti sem varða okkur öll og við viljum öll hafa sem besta. Allir Íslendingar vilja til dæmis geta veitt sem mest. Ekkert okkar vill lenda undir snjóflóði eða í einhverjum náttúruhörmungum. Við viljum ekki lenda í stríði. Við höfum þessa sameiginlegu hagsmuni og stöndum saman þegar að þeim kemur.

Með þessari þróun er hins vegar erfiðara, vil ég meina, að afmarka nákvæmlega hagsmunina. Ég segi aftur, vinir mínir eru margir frá alls konar löndum með allt öðruvísi hagsmuni. Þegar verið er að tala um hverjir fá nóg að borða get ég ekki lengur sagt: Ég vil bara að Íslendingar fái sem mest að borða, vegna þess að ég vil líka að vinir mínir úti fái sem mest að borða. Það er hætt að vera spurning um það að ég sé Íslendingur eða hvítur eða karlmaður eða hvað svo sem ég er miðað við aðra.

Ég veit ekki hvort ég hafi öllu meira að segja um akkúrat þetta málefni og veit ekki hvort ég á að hætta mér út í hvalveiðar. Jú, fjárinn hafi það, ég ætla að henda mér út í hvalveiðar. Píratar hafa ekki tekið formlega afstöðu til hvalveiða og ég ætlast ekki til þess að þeir geri það vegna þess að ég held að þetta sé nokkuð sem þurfi að vinna ekki alveg á pólitískum vettvangi. Hvalveiðar eru ágætisdæmi um nokkuð sem ég vil að við forðumst í viðhorfi okkar til útlanda, þjóðrembu, þjóðhroka.

Nú má vel vera að það sé nauðsynlegt að veiða hvali. Enginn hefur getað útskýrt fyrir mér hvers vegna svo ætti að vera, en gott og vel ef rökin snúast um að nýta auðlindir. Í alþjóðlegu samhengi verðum við samt að meta það einhvers, við verðum að meta það mikils, að við búum í alþjóðlegu umhverfi og við verðum fjandakornið að taka tillit til þess hvað öðrum finnst. Þá vara ég sérstaklega við því að við stöndum fast á okkar bara til að standa fast á því. Mér finnst það merki um afskaplega slæma dómgreind að byggja afstöðu á stolti og rómantík og saka ég hvorki hæstv. ráðherra né hv. þingmenn um það. Ég vara bara við þessu hugarfari, ekkert síður hjá þjóðinni almennt. Þetta er alþýðlegur heimur. Skilin milli innanríkismála og utanríkismála eru að verða óljósari. Það mun gerast. Við verðum að taka vel á móti því, við verðum að bregðast við og gera það með hliðsjón af þeim réttindum sem við viljum halda sem vestrænt ríki.

Það að viðhalda vestrænum borgaragildum er orðið þjóðaröryggismál. Það er öðruvísi núna, og erfiðara vil ég meina, en það var í gamla daga vegna þess að í gamla daga höfðum við NATO og Bandaríkin. Ef Rússar ætluðu að vera með einhver leiðindi hefðum við farið og sprengt Rússland, væntanlega hefði það verið einfalt eða svo skilst mér. Núna er þetta flóknara, núna þurfum við líka að passa okkur. Síðast en ekki síst þurfum við líka að passa okkur á vinum okkar.

Það er annað sem hefur breyst svolítið. Þetta gildir um alla. Bretar þurfa að passa sig á Bandaríkjamönnum, Bandaríkjamenn þurfa að passa sig á Mexíkó, við þurfum að passa okkur á Bandaríkjunum. Þetta er svolítið þannig líka. Hluti af því er vegna þess að „stríðið“ er að miklu leyti farið af vígvellinum sjálfum og inn í upplýsingaheiminn þar sem er ekkert teljandi mannfall. Þá er miklu auðveldara að gera alls konar hluti, græja og réttlæta án þess að til stríðs komi. Þá gera ríki það því að þegar allt kemur til alls vernda ríki hagsmuni sína. Um það snúast utanríkismál, a.m.k. í klassískum skilningi.

Þess vegna er mikilvægt að Íslendingar sjálfir taki þjóðaröryggismál sín í eigin hendur á sama tíma og við gerum okkur grein fyrir því að þau eru ekki jafn mikið í okkar höndum og verða það ekki í náinni framtíð. Við þurfum aðeins að fara að líta á þau mál, sérstaklega í samhengi við borgararéttindi og þau lýðréttindi sem við teljum sjálfsögð. Við þurfum að líta til framtíðarinnar björtum augum og opnum örmum gagnvart þeim breytingum sem eiga sér stað núna og munu óhjákvæmilega eiga sér stað í framtíðinni.