143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[14:39]
Horfa

Elín Hirst (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni kærlega fyrir ræðuna. Hann fór aðeins inn á almannaöryggi og þjóðaröryggisstefnu Íslands og ég vil lýsa því yfir að ég er mjög ánægð með þá ákvörðun utanríkisráðherra að byggja á tillögum nefndar um mótun þjóðaröryggisstefnu Íslendinga sem vann ágætt starf á síðasta kjörtímabili, að mér skilst, undir forustu hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur.

Sjálf hef ég miklar áhyggjur af gagnaöryggismálum Íslendinga sérstaklega, sem ég veit að tilheyra þessum málaflokki um þjóðaröryggi. Ég veit að ríkisstjórnin hefur, undir forustu hæstv. innanríkisráðherra Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, beitt sér fyrir því að setja þau mál í forgang. Í heimsókn minni á síðasta ári til norska nethersins, sem ég vildi kalla svo, þar sem þeir hafa látið útbúa sérstaka herstöð sem fer eingöngu með það verkefni að gæta varna landsins hvað varðar net- og tölvumál, vakti hann mig til mikillar umhugsunar um stöðu mála hér á landi.

Mig langar að spyrja hv. þm. Helga Hrafn Gunnarsson, sem er sérfræðingur í tölvumálum, hvort hann taki undir þær áhyggjur sem margir hafa af því að styrjaldir framtíðarinnar verði háðar með árásum á netkerfi landa og til dæmis með því að lama rafmagnskerfi o.s.frv.