143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:01]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Silju Dögg Gunnarsdóttur fyrir ræðu hennar og yfirlit sem laut einkum að utanríkisviðskiptum og viðskiptasamningum, fríverslunarsamningum og möguleikum í því sambandi og var það áhugavert.

Í skýrslu utanríkisráðherra, í kafla 4.2 er fjallað um stjórnskipuleg álitamál tengd aðild Íslands að EES. Þar er rakinn fjöldi álitaefna varðandi stjórnskipulega heimild fyrir EES-samstarfinu og vakið er máls á því að framhald verði væntanlega á þeirri þróun, sérstaklega er fjallað um reglur um eftirlit með fjármálamörkuðum í Evrópu og farið yfir það að fyrirhuguð upptaka þeirra reglna í EES-samninginn hafi verið í brennidepli vegna þess að að óbreyttu sé ljóst að þær muni ekki vera samrýmanlegar stjórnskipulegum heimildum Íslands og Noregs sérstaklega innan tveggja stoða kerfisins svokallaða í EES-samningnum.

Hv. þingmaður fór rækilega yfir möguleikana og mikilvægi EES-samningsins sem okkar mikilvægasta markaðar, og alveg burt séð frá hvaða möguleika við eigum annars staðar til þess að hasla okkur völl í viðskiptum við aðrar þjóðir þá held ég að það sé óumdeilt að eftir sem áður verður Evrópusambandsmarkaðurinn okkar megin- og mikilvægasti markaður. Mig langar því að inna hv. þingmann eftir því hvernig hún lítur á þetta viðfangsefni, það álitamál að því er varðar stjórnskipulegar heimildir, hvort hún telur að brýnt sé að ráðast í breytingar á stjórnarskránni til að hægt verði að leiða þær reglur EES eða Evrópusambandsins í landsrétt á Íslandi, (Forseti hringir.) hvort hún mundi styðja það að farið verði í nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni.