143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk fyrir að nefna flutningana, flugleiðirnar o.s.frv., það vantaði kannski aðeins upp á siglingarnar. Mig langar að impra aðeins á því að nú til dags er flogið með vörur fram og til baka og siglt er fram og til baka um allan heiminn. Það hefur mjög oft verið notað sem afsökun fyrir háu vöruverði á Íslandi að við búum á eyju og séum einangruð og dýrt sé að koma ýmsum vörum hingað. Mig langar því til að spyrja hvort einhver greining væri til á því, svona miðað við aðrar þjóðir, hversu miklu meira það kostar fyrir okkur að fá vörur hingað almennt, hvort einhver greining sé á því.

Hv. þingmaður talaði um lýðræðið, Sýrland og Norður-Kóreu. Ég hef voðalega mikinn áhuga á því að gera Ísland að dálitlum leiðtoga í lýðræðismálum. Ef taka á Egyptaland sem dæmi eða Túnis þegar ákveðnar byltingar gerast og þjóðaratkvæðagreiðsla tekur við, sem á að koma fram með ákveðnar breytingar á stjórnskipan, þá dettur hún alltaf inn í hefðbundið kosningaferli, að kosið er á fjögurra ára fresti til dæmis eða eitthvað því um líkt. Er ekki eðlilegra að við mælumst til þess að kosningar verði bara oftar, til dæmis í Úkraínu eða annars staðar, að kosningar verði eftir sex mánuði og síðan aftur sex mánuðum seinna, hreinlega til að fá og iðka lýðræðið, sérstaklega í löndum þar sem ekki hefur verið mikið lýðræði áður?