143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:23]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að gefa mér færi á að skýra afstöðu mína í þessu máli nokkuð betur.

Mér er annt um fullveldi þjóðarinnar. Ég er tilbúinn að deila því með öðrum þjóðum en ég er ekki tilbúinn að afsala því. Ég er hvorki til í að ganga Noregskonungi á hönd á nýjan leik né heldur að afsala valdi til alþjóðastofnana sem við eigum ekki aðild að. Þar af leiðandi er ég tilbúinn til þess að við göngum í Evrópusambandið og deilum fullveldi okkar með öðrum þjóðum þar af því að þá eigum við sæti við borðið. En ef það verður þannig að útfærslan sem menn koma fram með hér verður sú að stjórnarskránni verði breytt til að heimila valdaafsal á grundvelli EES-samningsins til Evrópusambandsins og að ákvarðanir af því tagi hvort skipta megi upp bönkum í gamla og nýja í kjölfar bankahruns, alveg eins og við gerðum árið 2008, verði seldar í hendur eftirlitsvaldi í Brussel án þess að við eigum aðild að Evrópusambandinu er ég ekki tilbúinn til þess, nei. Ég er ekki tilbúinn að horfa á þannig útfærslu í stjórnarskrá að menn heimili bara, þrátt fyrir að stjórnarskráin segi almennt að íslensk stjórnvöld eigi að fara með valdið, að hægt sé að moka innlendu valdi í hendurnar á einhverjum og einhverjum bara ef samningurinn heitir EES. Ég er ekki tilbúinn til að þola það.

Ég er tilbúinn til að leita útfærslna á því að Ísland sitji við borðið og grundvallaratriðið er að Ísland sé við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar. Þess vegna tel ég óhjákvæmilegt að nálgast málið út frá þessu viðmiði: Við erum tilbúin til að deila fullveldi með öðrum þjóðum en við erum ekki tilbúin til að afsala stjórnarfarslegu fullveldi þjóðarinnar til annarra.