143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má alveg velta því fyrir sér hvort við séum komin á þann stað. Það liggur auðvitað fyrir að árið 1992 þegar samningurinn var gerður var hlutfallslegt vægi EFTA-ríkjanna gagnvart Evrópusambandinu miklu meira en nú er. Það eru dæmi um aðlögunarsamkomulag í ákvörðunum fyrstu sameiginlegu EES-nefndarinnar eftir að samningurinn tók gildi. Um leið og fækkaði í EFTA-ríkjahópnum og valdajafnvægið eða stærðarjafnvægið breyttist jafn gríðarlega og raun ber vitni í dag þar sem öll Mið- og Austur-Evrópuríkin eru komin inn, þá hefur þetta orðið raunverulegur möguleiki. Það veldur því svo aftur að fullveldið á þessu sviði hefur fyrst og fremst verið formlegt.

Menn töldu það réttlætanlegt á sínum tíma vegna þess að sviðið væri orðið svo afmarkað. Nú er alltaf verið að tala um að víkka út sviðið og það voru ríkisstjórnarflokkarnir, sem núna þykjast ekki geta sótt um aðild að Evrópusambandinu því að þeir séu svo háheilagir í vörn sinni fyrir fullveldi þjóðarinnar, sem sömdu um aðild okkar að Schengen á sínum tíma, þeir lögðu af ytri landamæri þjóðarinnar, afhentu búlgörskum landamæravörðum fullnaðarvald til að ákveða hverjir færu inn til Íslands og hverjir ekki, svo dæmi sé tekið. Það er þess vegna alveg ljóst að um leið og farið er inn á ríkari svið — ég held t.d. að enginn hafi séð það fyrir sér árið 1992 að ákvörðunarvald um fyrirkomulag fjármálakerfis á tímum fjármálaáfalls yrði tekið úr íslenskum höndum á grundvelli einhverra gerða, ég held að enginn hafi talið þá að það væri yfir höfuð mögulegt. Efnissvið tilskipananna var miklu þrengra á þeim tíma. Um leið og við erum komin út í það að slíkar tilskipanir (Forseti hringir.) eru orðnar mögulegar þá dugar hið formlega fullveldi ekki lengur. (Forseti hringir.) Þá er ekki hægt að loka augunum fyrir því að efnislegi rétturinn til ákvörðunartöku er ekki fyrir hendi.