143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:31]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek eftir því að þingmaðurinn virðist þá vera sammála því að við séum a.m.k. komin á þann stað að þurfa að fara að ræða okkur í gegnum það hvernig við ætlum að taka á þeim stjórnskipulegu álitamálum sem uppi eru og hvort við finnum á þeim lausnir innan tveggja stoða kerfisins að því er varðar EES-samninginn eða ekki.

Ég tók líka eftir því að þingmaðurinn ræddi um það að hann væri ekki reiðubúinn að afhenda fullveldi þjóðarinnar til stofnana sem við ættum ekki aðild að, hann væri tilbúinn að deila fullveldinu með stofnunum sem við ættum aðild að. Mig langar til þess aðeins að fara í atriði sem kann að virðast smáatriði en getur samt skipt miklu máli og það er orðalagið í þessu samhengi. Gerir þingmaðurinn greinarmun á því hvort um er að ræða alþjóðasamstarf sem við eigum aðild að eða alþjóðasamstarf sem við tökum þátt í? Það getur verið nokkur munur á því að eiga aðild að alþjóðasamstarfi, alþjóðasamtökum, fjölþjóðasamtökum eða taka þátt í samstarfi þar á vegum. Það mundi ég telja að gæti átt við um EES-samninginn eða þess vegna Schengen, það er alþjóðasamstarf sem við tökum þátt í en eigum ekki beina aðild að hinum efnislegu ákvörðunum.

Ég vil heyra hvort þingmaðurinn er sammála mér í því að það þurfi a.m.k. að greina þarna á milli. Hvað sér hann þá fyrir sér ef menn réðust í breytingar á stjórnarskránni hjá okkur hvað varðar meðferð utanríkismála og að heimila einhvers konar framsal á ríkisvaldi? Hvaða takmarkanir sér hann fyrir sér í því efni?