143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[15:36]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrslu sína um utanríkis- og alþjóðamál. Mig langar að tæpa á örfáum atriðum, það er ekki tími fyrir meira. Þarna er verið að fara yfir sviðið vítt og breitt og hafandi tekið þátt í lokaspretti þeirrar vinnu sem var unnin á vegum nefndar um þjóðaröryggisstefnu, sem nú hefur verið afhent hæstv. utanríkisráðherra og hann hefur lýst því yfir að hann hyggist leggja fram þingsályktunartillögu sem byggi á þeirri vinnu, sem ég fagna mjög, fannst mér eitt af því merkilega sem kom fram í henni vera ný sýn á öryggishlutverkið. Sú umræða er komin miklu lengra annars staðar í heiminum en við Íslendingar tókum hana dálítið upp með þessari vinnu. Þá vitna ég sérstaklega til tveggja atriða sem mig langar að gera að aðalumræðuefni hér. Það eru umhverfismálin og öryggi út frá stöðu þeirra mála í heiminum og hins vegar netöryggis- og upplýsingaöryggismálin sem líka hefur aðeins borið á góma í dag.

Ég hefði viljað sjá talsvert ítarlegri umfjöllun, og kannski er ekki hefð fyrir því en þá er mikilvægt að hæstv. utanríkisráðherra velti því fyrir sér til framtíðar, um umhverfismál í skýrslu á borð við þessa því að ég tel að umhverfismál sé sá málaflokkur sem mun verða langfyrirferðarmestur á sviði alþjóðasamskipta og utanríkissamskipta á næstu árum og áratugum. Við horfum á stöðu mála þegar kemur að loftslagsbreytingum. Við horfum á umræðuna í Evrópu sem er að færast af miklum krafti yfir til Evrópu eftir að hafa hafist í þeim ríkjum sem eru útsettust fyrir loftslagsbreytingum. Við sjáum að það er alger samstaða um það í heimi vísindanna að það eru loftslagsbreytingar. Enn eru einhverjir sem deila um nákvæmlega hverjir séu valdir að loftslagsbreytingum eða hverju sé hægt að breyta en hér er komin mjög mikil umræða um annars vegar hvernig við getum reynt að hægja á þeim breytingum og hins vegar hvernig við ætlum að standast þær breytingar sem óhjákvæmilega munu verða. Ég hefði viljað sjá aukna umfjöllun. Hér eru tíu línur um loftslagsbreytingar. Af því að við setjum þetta í samhengi við annað sem hæstv. ríkisstjórn er að gera og höfum fengið fram nýja Evrópustefnu hefði ég líka viljað sjá umfjöllun þar um umhverfismál. Við erum, alveg óháð öllum aðildarumræðum eða viðræðum við Evrópusambandið, aðilar að loftslagsmarkmiðum Evrópusambandsins um að draga úr losun. Mér finnst mikilvægt að við séum þar og við tókum á okkur skuldbindingar Kyoto 2 í Doha 2012 ásamt aðildarríkjum ESB. Þarna finnst mér að við Íslendingar eigum að vera í fararbroddi. Ég hefði líka viljað sjá þessa umfjöllun í tengslum við norðurslóðamál og aðrir hv. þingmenn hafa komið inn á það. Umræðan hér hefur mikið verið um tækifærin sem felast í breyttu veðurfari og bráðnun íss á norðurslóðum og auðvitað horfum við öll á það. Ég held að þar megum við hins vegar líka skerpa talsvert sýn okkar, ekki einungis á ástæður þessara tækifæra, sem eru loftslagsbreytingar, heldur líka á möguleikana á staðbundinni mengun sem kann að skapast út af skipaferðum á norðurslóðum. Þá er ég ekki aðeins að vitna til slysahættu, sem vissulega er getið um, og öryggismál tengd auknum skipaferðum um norðurslóðir sem tæpt er á hér í skýrslunni.

Ég vil nefna að ég átti ágætan fund með vestnorræna ráðinu í Færeyjum í janúar þar sem farið var yfir þau mál til dæmis hvað aukin skipaferð mundi þýða í aukinni staðbundinni mengun. Það kann að vera að jafnvel gæti dregið úr mengun á heimsvísu með auknum skipaferðum um norðurskautið af því að þá væru skipin að ferðast styttri leiðir, en staðbundin mengun gæti aukist og það getur haft mjög mikil áhrif á Ísland og hagsmuni Íslands. Öll þessi mál, hvort sem við horfum á þau hnattrænt eða staðbundin tel ég vera stærsta viðfangsefni stjórnmálanna bæði heima og erlendis. Ég brýni hæstv. utanríkisráðherra til framtíðar, að það verði enn sterkari fókus á öllu því sem Ísland teflir fram því að við erum lítil þjóð sem reiðum okkur mjög á fiskinn í sjónum. Það eru líklega fáar þjóðir sem eiga meira undir því að vera öflugur málsvari umhverfismála alls staðar þar sem hún kemur.

Síðan langar mig að nefna netöryggisstefnuna og það er eitt af því sem er tæpt á í þessari nýju þjóðaröryggisstefnu. Það er svo að þau mál hafa breyst gríðarlega frá 11. september 2001 og þeir atburðir sem gerðust þá hafa þýtt alveg gríðarlega róttækar breytingar á lífi okkar á Vesturlöndum og líklega miklu róttækari breytingar en við áttum okkur á sem höfum bara lifað okkar daglega lífi á þessum tíma. Þegar þetta verður skoðað sögulega held ég að greina megi gríðarlegar breytingar. Eitt af því sem hefur verið bent á er að einn mest vaxandi iðnaður heimsins, hvort sem er af hálfu hins opinbera eða einkaaðila, er svokallaður öryggis- og eftirlitsiðnaður. Þá er ég ekki að vitna í eftirlitsstofnanir á borð við heilbrigðiseftirlitið, ég er að tala um fyrirtæki, stofnanir sem eru einungis í því að safna upplýsingum um fólk. Við höfum fengið sögu Edwards Snowdens en við erum líka með harðar tölur, tölfræði sem sýnir að þarna er mesti vöxturinn, til að mynda í Bandaríkjunum, í öllum iðnaði. Mesti vöxturinn er í þessum iðnaði. Það er verið að stofna fyrirtæki sem snúast um að safna upplýsingum um fólk. Þegar Vodafone-lekinn varð þá varð kannski ákveðin vitundarvakning, bæði hjá hæstv. utanríkisráðherra persónulega en líka almennt hjá fólki um það hvað þessar upplýsingar eru viðkvæmar, hvað við sendum stanslaust í skilaboðum, tölvupóstum, í samskiptamiðlum. Það er mjög mikilvægt að við mótum okkur stefnu um þetta en líka að við veltum nákvæmlega fyrir okkur öryggishugtakinu sem liggur á bak við. Þarna er auðvitað verið að veita gríðarlega fjármuni alþjóðlega í eftirlitsiðnað. Og við getum velt því fyrir okkur hvernig sá eftirlitsiðnaður eykur öryggi okkar. Stundum er rétt að spyrja: Hversu mikli breytir það fyrir öryggi mitt þótt ég setji fjóra lása á dyrnar? Mun það í raun og veru einhverju skipta ef enginn tekur í hurðina?

Það sem má segja að það sem eftirlitsiðnaðurinn nærist á séu aðallega þær hugmyndir að við getum á einhvern hátt birgt okkur inni og læst okkur öll inni og birgt okkur upp af vopnum og vistum. Það er mjög mikilvægt, og mér fannst það nást með umræðunni sem varð í þjóðaröryggisstefnunefndinni, að hefja sig upp yfir þetta. Þetta snýst ekki aðeins um að grafa sig niður í „bönkerinn“ og vera tilbúinn alla daga heldur líka að átta sig á því að öryggið snýst fyrst og fremst um friðsamleg samskipti fólks á milli. Það finnst mér að eigi að vera leiðarljós okkar. Fólk hefur verið upptekið af því sem sameinar okkur en ég vil samt minna á þá sérstöðu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í íslenskum stjórnmálum, og ítreka hana hér, enn og aftur, að við teljum til að mynda ekki að við eigum að vera þátttakendur í hernaðarbandalögum á borð við Atlantshafsbandalagið enda ýta þau ekki undir friðsamleg samskipti manna á milli.

Tíminn er gríðarlega skammur sem ég hef en ég verð aðeins að koma að EES-gerðunum og því sem rætt er um innleiðingu EES-gerða. Það má segja að við höfum stundum verið gagnrýnd hér á landi fyrir að vera kaþólskari en páfinn í innleiðingu gerða og það hafa verið nefnd dæmi um það, eins og raforkutilskipunin og fráveitutilskipunin sem talið er að hefði verið hugsanlega hægt að fá undanþágur frá eða sérstaka aðlögun á eða eitthvað slíkt sem hefði gert það að verkum að við hefðum ekki þurft að ganga jafnlangt í innleiðingu gerðanna og gert var á sínum tíma. Löggjafarvaldið getur svo auðvitað alltaf ákveðið að ganga lengra en það sem hefur komið upp, og hefur komið talsvert upp og verið mjög mikið í umræðu þvert á flokka í þinginu, er þegar við fáum til að mynda innleiðingu á gerðum eins og núna sem lýtur að bakgrunnsathugun á fólki sem vinnur á flugvöllum eða þarf að hafa aðgang að flugvöllum þar sem allir umsagnaraðilar eru sammála um að gengið sé mun lengra en gerðin kveður á um í raun og veru. Þetta er eitt af því sem ég tel að við þurfum að skoða og kallar kannski á hvernig við vinnum að innleiðingu þessara gerða.

Annað dæmi er atriði sem hefur mikið verið rætt hér og lýtur að endurmenntun atvinnubílstjóra og er talið að við séum jafnvel að innleiða á skemmri tíma en þurfi að gera. Þótt það sé markmið ríkisstjórnarinnar núna að vinna á innleiðingahallanum þ.e. innleiða gerðir hraðar en gert hefur verið, vil ég undirstrika að mjög mikilvægt er að þessar gerðir fái mjög vandaða umfjöllun þannig að það liggi algerlega ljóst fyrir til að mynda hvað nákvæmlega af þeirri löggjöf sem hér kemur inn er hluti af gerðum, hvað eru viðbótarkröfur, eins og virðist vera t.d. í dæminu um bakgrunnsatvinnuna, þannig að löggjafinn hér á landi geti tekið upplýsta ákvörðun um þau mál.

Að lokum, af því að ég á aðeins 30 sekúndur eftir, vil ég nota tækifærið og minna á þann kafla sem hér er um þróunarsamvinnu og við hæstv. utanríkisráðherra höfum auðvitað átt samtöl um hana áður. Ég vil minna á hversu gríðarlega mikilvægur þáttur þetta er í utanríkisstefnu okkar og alþjóðasamvinnu og kannanir sýna að Íslendingar vilja efla þróunarsamvinnu á Íslandi. Hér eru talin upp mörg mjög góð dæmi um það hvernig við styðjum við þjóðir til að hjálpa sér sjálfar, hvort sem það er í fæðingarhjálp, fiskveiðum eða menntun. (Forseti hringir.) Ég gagnrýndi mjög þann niðurskurð sem varð á framlögum til þróunarsamvinnu í síðustu fjárlögum og ég brýni hæstv. utanríkisráðherra til þess að við sjáum breytingu þar á í næstu fjárlögum.