143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir alveg prýðilega ræðu og glöggan skilning og þekkingu á norðurskautinu og einkum og sér í lagi áhuga hennar á frumbyggjum. Ég deili þeim áhuga.

Ég hef verið talsmaður þess að Ísland kæmi sér upp sérstakri stefnu um málefni frumbyggja. Jafnvel þó að engir slíkir séu á Íslandi höfum við átt góða samleið með þeim og góða samvinnu um margvísleg mál. Það er ljóst að við styðjum mörg baráttumál þeirra. Stundum hefur mér fundist sem hlutur þeirra sé mjög fyrir borð borinn í ákveðnum löndum sem liggja að norðurskautinu. Vissulega hefur hagur þeirra batnað á síðustu árum. Eftir því sem skilningur og stuðningur manna við mannréttindi hefur aukist og sömuleiðis aðhald fjölmiðla á tímum mikilla samskipta um vefinn er líka orðið miklu erfiðara fyrir þjóðir að komast upp með að beita þá harðræði.

Spurning mín til hv. þingmanns er þessi: Telur hún ekki prýðilega hugmynd að ríkisstjórn Íslands komi sér upp sérstakri stefnu um málefni frumbyggja á norðurslóðum?