143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:06]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að íslenska ríkisstjórnin og hæstv. utanríkisráðherra ættu að beita sér fyrir því að slíkri stefnu yrði komið upp. Við ræddum það þegar við samþykktum árið 2011 stefnu okkar í málefnum norðurslóða. Það kom vel fram hjá hæstv. utanríkisráðherra í framsögu hans fyrr í dag að algjör samstaða er um að mannréttindi eru mjög ríkur og snar þáttur sem við leggjum mikla áherslu á sem ríki, ég held að jafnvel mætti ganga lengra og kalla það burðarás í íslenskri utanríkispólitík. Þannig hefur það þróast á síðasta einum og hálfum áratug og um þetta er samstaða.

Það er hægt að benda á mörg dæmi um það að hlutur frumbyggja í ríkjunum sem liggja að norðurskautinu hefur verið fyrir borð borinn. Það væri kannski hægt að nefna eitt ríki umfram önnur en ég ætla ekki að gera það. Ég tel þetta þarft verk og finnst frábært að hv. þingmaður sé mér sammála um það. Ég vona að hún beiti áhrifum sínum á hæstv. utanríkisráðherra.