143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég held að þau störf sem unnin eru í utanríkisráðuneytinu og af starfsmönnum utanríkisþjónustunnar séu oft og tíðum hin vanmetnustu af þeim sem unnin eru í Stjórnarráðinu, þótt ekki sé nú skilningur á öllu. Það kemur mjög gjarnan fram í því að þegar draga þarf saman seglin vegna fjárhagsörðugleika er í almennri umræðu yfirleitt fyrst bent á utanríkisráðuneytið, hvort ekki sé nú rétt að skera niður hjá því fólki, sem sumir virðast halda að geri ekki annað en dansa menúett í útlöndum og er mikill misskilningur. Ég held meira að segja að hæstv. ráðherra sem færði okkur skýrslu hér áðan sé einn af þeim sem hafi sagt í ræðustól að skoðun hans á starfsemi utanríkisráðuneytisins hafi breyst mjög eftir að hann kynntist því nánar. Það var áður en hann varð ráðherra sem hann sagði þetta.

Ég hef áhyggjur af fjárveitingum til utanríkisþjónustunnar. Þess vegna hafði ég líka áhyggjur þegar ég sá í fjárlagafrumvarpinu, þegar síðasti skransinn var tekinn á því, að lækka átti fjárveitingar til allra skrifstofa allra ráðuneyta um 5% en um 7,5% hjá utanríkisráðuneytinu. Ég hef áhyggjur af þessu. Gífurlega mikil vinna er unnin í utanríkisþjónustunni. Í þessum sal beinum við sjónum okkar oftast að stóru málunum, ef svo má kalla, en sjaldan eða aldrei er minnst á borgaraþjónustuna sem er gífurlega mikil. En sem betur er það kannski þannig að enginn áttar sig á mikilvægi hennar fyrr en hann þarf að nota hana.

Hæstv. ráðherra kom einmitt inn á þetta í upphafi máls síns í dag, hann tók dæmi um mann sem var illa staddur í Mombasa og áttaði sig allt í einu á því að það væri hægt að fá aðstoð frá utanríkisþjónustunni. Einnig er reynt að hjálpa fólki sem gerist brotlegt við lögin og lendir í fangelsi í útlöndum við þannig skilyrði að okkur finnst erfitt að vita af samlöndum okkar við þær aðstæður. Þar reynir utanríkisráðuneytið, borgaraþjónustan, að hjálpa. Svo ekki sé nú minnst á að fólk getur kosið, bæði í sendiráðum og hjá ræðismönnum.

Síðan sé ég í þessari skýrslu að nú er kominn sá möguleiki að fólk getur tekið próf í útlöndum. Í nútímanum þegar fólk getur verið í fjarnámi hér og þar, getur það farið inn í sendiráð í útlöndum og tekið próf. Mér finnst að við eigum að muna eftir þessu og gera okkur grein fyrir því hvað utanríkisþjónustan skiptir miklu máli.

Þá kem ég að stóru málunum. Ég veit ekki hvort ég á að þakka hæstv. ráðherra eða hrósa honum fyrir það að við gátum klárað og afhent utanríkisráðherra vinnu sem unnið var að á síðasta ári í nefnd um mótun þjóðaröryggisstefnu, hann var reyndar í þeirri nefnd. Lokapunkturinn var settur núna eftir áramót. Þetta hafði dregist vegna þess að af ákveðnum ástæðum tókst ekki að klára vinnuna fyrir kosningar. En ég vil þakka honum fyrir að ætla að halda áfram með það efni og nota plaggið sem vinnugagn. Eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði áðan er það í raun ekkert sjálfsagt, menn halda ekki áfram með alla hluti. Ég er ekki jafn ánægð með hvernig hæstv. ráðherra hefur farið með vinnuna sem unnin hefur verið í Evrópumálum, svo það komi alveg skýrt fram.

Norðurskautsmálin eða málefni norðurhafa eru mjög til umræðu og skipta gífurlega miklu. Ég vil leggja áherslu á það að við þurfum að gæta þar varúðar, ekki bara vegna þess að náttúruvá getur fylgt því ef nýta á þau auðæfi sem þar eru, en málið er það að við vitum enn þá svo lítið. Við megum ekki búa til væntingar um að nú séum við, vegna legu landsins eins og alltaf var talað um hér áður fyrr, komin aftur í einhverja mikilvæga stöðu í heiminum. Við þurfum að gæta varúðar og vera eiginlega með sólgleraugu þegar við horfum í þessa átt til að búa ekki til væntingar um eitthvað sem ekki er fyrir hendi. Menn segja t.d. að breyttar siglingaleiðir skapi gífurleg tækifæri fyrir Íslendinga. Já, ef siglt er í gegnum pólinn, annars erum við bara langt úr leið. Við þurfum að átta okkur á þessu áður en við gerum okkur of miklar væntingar. Við þurfum auðvitað að kanna málin og skoða, en við megum ekki gera okkur of háar hugmyndir um hversu óskapleg tækifæri virðast liggja þarna fyrir. Við eigum að nýta okkur þau, skoða þau, vera á tánum gagnvart þessu arna, en gæta varúðar.

Í því sambandi langar mig að nefna þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem samþykkt var á þingi á síðasta kjörtímabili. Í henni var lögð áhersla á að við þyrftum að efla og styrkja Norðurskautsráðið og það þyrfti að vera ljóst að það er Norðurskautsráðið sem fer með mál norðurskautsins. Þar er vandinn sá að ríkin fimm sem eru skilgreind sem strandríki vilja gjarnan ráða ráðum í þessum málum. Þá var í þingsályktuninni einnig sagt að Ísland þyrfti að leggja vinnu í það að fá viðurkenningu sem strandríki innan norðurskautssvæðisins. Ég vil leggja áherslu á það og hefði gaman af því að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvaða vinna sé í gangi með að við fáum viðurkenningu sem strandríki í þessu samhengi.

Ég kom aðeins inn á Evrópumálin. Þó að við höfum rætt þau mikið undanfarið er ekki vanþörf á því að lýsa enn einu sinni þeirri skoðun og vonbrigðum með það hvernig ríkisstjórnin hefur staðið að málum í þeim efnum og hvernig ætlunin virðist vera að svíkja klárlega gefin kosningaloforð, aðallega annars stjórnarflokksins. Ekki er annað hægt en að nefna í sömu andrá Evrópustefnuna sem var samþykkt í ríkisstjórninni um daginn. Kannski væri ástæða til að ræða hana sérstaklega, ég á tæplega eina og hálfa mínútu eftir og ætla þá fyrst núna að koma að þeirri stefnu.

Ég verð að segja að mér finnst hún ákaflega þunn og á margan hátt skrýtin. Til dæmis það að ríkisstjórnin ætlar að stefna að því að vera besti nemandinn í bekknum í að innleiða EES-gerðir, ætlar að vera fyrirmyndarnemandi í því, en ætlar í rauninni aldrei, ef ég held áfram samlíkingunni, að vera í kennslustofunni, hefur ekki einu sinni sendiráð til að fara í og taka próf í í fjarnámi. Ríkisstjórnin vill ekki halda áfram vinnu með inngöngu í Evrópusambandið þar sem við hefðum áhrif á aðrar þjóðir þegar ákvarðanir eru teknar. Nei, ríkisstjórnin vill halda áfram að vera í togi, lítil kæna í togi, ráða engu um stefnuna og vera ekki einu sinni í herberginu þegar ákvarðanir eru teknar, en ætlar síðan að vera fyrirmyndarnemandi í því að innleiða allt eins og á færibandi.

Þá vil ég líka taka undir það sem var til umræðu rétt áður um að íhuga þarf vel hvernig þessar gerðir eru innleiddar hér, (Forseti hringir.) því oftar en ekki höfum við í þeim efnum verið kaþólskari en páfinn.