143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hennar ágætu ræðu og þakka líka fyrir þau orð sem þingmaðurinn hafði um utanríkisþjónustuna og mikilvægi hennar og áhyggjur af fjárveitingum til utanríkisþjónustunnar. Eins og ég kom að fyrr í dag er það vissulega áhyggjuefni hversu mikið fjárveitingar hafa minnkað til þessarar starfsemi, þar sem því er einna mest sinnt að tengja Ísland við umheiminn. Ef við skerum mjög stíft af okkur þá anga kemur það auðvitað á endanum niður á einhverju.

Ég vil líka nota tækifærið og þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir hennar stjórn í nefndinni sem fjallaði um og bjó til grunninn að þjóðaröryggisstefnu. Það er gott að okkur tókst að ná nokkurn veginn sama skilningi á öll stærstu málin í þjóðaröryggismálum. Tek ég undir áherslurnar sem þingmaðurinn nefndi þar.

Þingmaðurinn spyr hvaða vinna sé í gangi varðandi það að fá okkur viðurkennd sem strandríki. Við teljum að dropinn holi steininn og erum alltaf að leita eftir betri og betri rökum fyrir því að vera skilgreind sem slíkt ríki og að geta bent á af hverju við ættum að vera það. Við notum hvert tækifæri til þess að benda þessum fimm ríkjum á stöðu Íslands og hvers vegna við ættum að vera á þeim fundum sem þau stunda. Það hefur ekki gengið fram að þessu. Ég ætlaði reyndar að svara því síðar í dag, ég fékk spurningu um það, en það er fundur hjá þeim mjög fljótlega sem okkur er ekki boðið á. Við höfum mótmælt því mjög harðlega, mjög ákveðið, og reynt að benda á hversu mikið óréttlæti það er í rauninni og vitleysa að halda þessa fundi án okkar. Áfram munum við reyna að hola þann stein.

Ég ætla ekki að falla í þá freistni að takast á við (Forseti hringir.) hv. þingmann um Evrópubandalagið og Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar, við höfum örugglega nógan tíma síðar.