143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:23]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég játa að mér finnast utanríkismál heillandi verkefni. Ég fékk mína pólitísku vitund fyrir um 50 árum, 55 árum, árið 1959, ég hef kannski sagt frá því áður. Þá voru utanríkismál aðeins á öðrum sviðum en nú er. Þá var helst tekist á um landhelgi og NATO og fríverslunarmál voru lítt til umræðu. Ég verð líka að játa að skýrsla utanríkisráðherra, sem er ekki þykk en komið er víða við, segir margt um hvað er þó verið að gera hér í litlu landi. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrsluna og tel að hún geti gagnast mér þokkalega á frummánuðum mínum á þingi. Ég ætla líka að segja að hin heillandi utanríkismál eru mér oft dálítil ráðgáta. Ég á betur með að horfa í baksýnisspegilinn en fram á við.

Ísland varð sjálfstætt 1944. Það sem ég dáist mest að á frumárum lýðveldisins er hvað Ísland gekk hratt og vel fram í því að ganga til samvinnu við alþjóðastofnanir sem þá urðu til, eins og Alþjóðabankann, Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Alþjóðaflugmálastofnunina, allt gerðist þetta árið 1944 þegar enn var styrjöld í heimi, og síðan gekk Ísland í Sameinuðu þjóðirnar árið 1946. Þegar vá var í Evrópu gekk Ísland í NATO og það klauf þjóðina og það klauf Evrópu, NATO klauf Evrópu, en nú er það svo að allar þær þjóðir sem áður voru í Varsjárbandalaginu hafa gengið til liðs við NATO og töldu sínu frelsi best borgið þar. Mér er minnisstætt þegar fyrrverandi forseti Póllands var spurður út í veru Póllands í NATO fyrstu dagana sem landið var í NATO og varð að taka þátt í hernaðaraðgerðum á Balkanskaga. Hann var verulega stoltur af þeim hernarðaraðgerðum vegna þess að þar var verið að koma í veg fyrir þjóðernishreinsanir í ýmsum Balkanlöndum og það þekktu Pólverjar. Þeim rann blóðið til skyldunnar.

Ég ætla að nefna að nú snúast utanríkismál meira um viðskipti, þróunarmál og tengt þróunarmálunum eru mannúðarmál, rannsóknir og öryggismál í víðasta skilningi. Þar kemur t.d. til gagnaöryggi. Ísland hefur sýnt viðleitni á öllum þeim sviðum, en þróunarmálin eru náttúrlega algerlega ótæmandi verkefni. Við höfum þó reynt að fara þá leið sem er arðbærust, tel ég, þ.e. að styðja þjóðir til sjálfshjálpar með því t.d. að kenna fiskveiðar og sömuleiðis að mennta konur. Ég tel að menntun kvenna sé eitthvert arðbærasta verkefni í þróunarmálum því að um leið og menntun kvenna á sér stað geta þær miðlað hratt og vel til barna. Þetta margfaldar því áhrif þess sem við getum veitt.

Sömuleiðis ætla ég að nefna að smáþjóðin Ísland getur haft áhrif fyrir frumkvæði sitt, eins og í Eystrasaltslöndunum og þar markaði það kannski slóð sem leiddi til þess að þau lönd, sem mér er alltaf hlýtt til, urðu sjálfstæð og ýmislegt fleira gerðist í kjölfarið.

Ég ætla sem minnst að fjalla um Evrópusambandið, þetta er ekki vettvangur til þess. Þó ætla ég að segja að Ísland var því miður allt of seint að taka þátt í fríverslunarsamstarfi og verndarstefna hefur verið hér allt of lengi við lýði og er það að nokkru leyti enn. Ísland er partur af Evrópu. Þannig er að um 90% af útflutningi okkar er til Evrópulanda, þar af eru 65% til evrusvæðisins og um 71% af innflutningi frá Evrópulöndum. Ísland er Evrópuland. Við þurfum að horfa til þeirra landa og þau eru og verða viðskiptalönd okkar. Hins vegar megum við ekki horfa fram hjá ný-löndum. Þar kann að vaxa upp ný millistétt. Viðskiptasamningar geta haft ýmislegt í för með sér.

Það má líka nefna hér og nú að viðskipti milli landa eru að einhverju leyti flutningur á framleiðslu og hugsanlega flutningur á mengun og loftslagsáhrifum. Þannig dettur mér í hug að nefna hér á Alþingi þegar nýlega er búið að samþykkja fríverslunarsamning við Kína að fyrrverandi aðalbankastjóri bandaríska seðlabankans, Alan Greenspan, hafði orð á því að landsframleiðsla í Kína væri um of byggð upp á olíu, olíunotkun væri allt of mikil fyrir landsframleiðslu. Við skulum ekki horfa fram hjá því.

Þessi tvískipta utanríkisþjónusta hefur verið nefnd í ræðum. Ég ætla að leyfa mér hér og nú að spyrja hæstv. utanríkisráðherra út í tvennt. Í fyrsta lagi ætla ég að nefna, eins og fram hefur komið, að forseti Íslands er ábyrgðarlaus í stjórnarathöfnum. Hér ætla ég að vitna, með leyfi forseta, í viðtal við forseta eftir að Þýskalandsheimsókn lauk. Hér er orðrétt:

„Auk þess skiptir okkur líka máli á þessum tímamótum að eiga viðræður við áhrifamesta fólkið í Evrópu, og reyndar í veröldinni einnig, og tel ég að samræður við Angelu Merkel kanslara hafi ekki aðeins verið gagnlegar og mikilvægar heldur ef hún verður endurkosin, eins og hún sagði, hafi þær lagt grundvöll að mjög náinni samvinnu hennar við íslenska þjóð og íslenska ráðamenn á næstu árum.“

Það er svo að fáum þjóðum treysti ég eins vel og Þjóðverjum og Þýskalandi en nú hefur Angela Merkel verið endurkosin kanslari og ég sit á Alþingi og ég sit í utanríkismálanefnd. Því spyr ég hæstv. utanríkisráðherra: Hvaða samningar hafa verið gerðir, hvaða samningar eru í farvatninu við Þýskaland?

Sömuleiðis ætla ég að vitna, með leyfi þingforseta, í áramótaræðu forseta lýðveldisins. Þar segir hann:

„Vilji Rússa til að efla gömul og góð tengsl við Ísland með auknum áherslum á norðurslóðir birtist svo glöggt í viðræðum við Vladimír Pútín í september, vilji sem forseti Rússlands hefur reyndar lýst áður einkar skýrt.“

Nú er það svo að áhugi Vladimírs Pútíns á ýmsum löndum er ekki öllum að skapi. Þessi fornu tengsl eru kannski frá því um það leyti sem Ísland tók kristni þegar íslenskir prestar leituðu til Garðaríkis, til Úkraínu. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um þessi tvenn ummæli þar sem forseti lýðveldisins er kominn alllangt inn á það sem ég hef hingað til talið eðlilegt verksvið utanríkisráðuneytis og Alþingis og vegna ábyrgðarleysis forseta tel ég að hann sé þarna kominn á ystu mörk.

Virðulegi forseti. Tíma mínum er lokið og fátt leiðist mér jafnt og bjöllugjálfur forseta. Ég hef lokið máli mínu.