143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:49]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hann fjallaði aðallega um norðurslóðamálefnin sem ég held að við séum öll sammála um að séu mikilvægur þáttur í utanríkisstefnu Íslendinga, reyndar ekki bara utanríkisstefnu heldur líka í innanlandsmálum.

Ég verð samt að viðurkenna að það fer alltaf um mig pínulítill hrollur þegar menn draga upp þessar stórkarlalegu lausnir í efnahags- og atvinnumálum Íslendinga. Við þekkjum úr sögunni ýmis slík dæmi sem ekki hafa endilega verið affarasæl fyrir okkur. Við erum þrátt fyrir allt fámennt og lítið samfélag.

Hv. þingmaður ræddi sérstaklega um stórskipahöfn á Austurlandi. Sú umræða hefur verið talsvert í gangi að undanförnu. Eins og ég segi hef ég talsverðar áhyggjur af því þegar menn draga upp svona mynd af því hvað við getum og hvar tækifæri okkar liggja í einhverjum slíkum mjög svo stórum og stórkarlalegum lausnum.

Ég hef sjálfur miklar efasemdir um að málið muni þróast svona. Í fyrsta lagi hef ég efasemdir um að norðurskautið sjálft opnist fyrir siglingar svo heitið geti um áratugaskeið og þá er ég að tala um yfir pólinn sjálfan. Ég held að það sé miklu skemmra í að norðausturleiðin opnist og þá er ég ekki viss um að hafnarmiðstöð á Austurlandi á Íslandi sé málið.

Þessu tengist sem sagt að við erum að tala um hvaða tækifæri felist í breyttum aðstæðum á norðurslóðum — sem orsakast af hverju? Af hlýnun andrúmsloftsins. Hv. þingmaður nefndi umhverfismálin í lokin. Kjarninn er sá að andrúmsloftið er að hlýna. Hvað ætlum við að gera í því? Er það ekki vandinn sem þarf að taka á, (Forseti hringir.) í raun og veru að draga úr hlýnun andrúmsloftsins sem aftur þýðir að þessi tækifæri sem hv. þingmaður nefndi væru fjær (Forseti hringir.) okkur í tíma en ella?