143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[16:59]
Horfa

Karl Garðarsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ágæta ræðu hér fyrr í dag. Margrét Einarsdóttir, lektor við Háskólann í Reykjavík, sagði í viðtali við Fréttablaðið í fyrradag að það væri áhyggjuefni að ekki væri búið að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskránni til að hægt væri að leiða í lög reglugerðir og tilskipanir Evrópusambandsins. Orðrétt sagði hún, með leyfi forseta:

„Það þarf að breyta stjórnarskránni og setja inn ákvæði um valdframsal til alþjóðlegra stofnana til þess að hægt sé að innleiða ákvæði um bankaeftirlit á sviði fjármálaþjónustu. Annars væri ekki hægt að útiloka að ákveðinn hluti samningsins yrði bara settur í frost hjá okkur. En samningurinn virkar ekki ef við hættum að geta innleitt afleidda löggjöf á einhverju sviði hans.“

Margrét bendir líka á að þó að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafi enn ekki gripið til aðgerða vegna þessa sé það pólitísk spurning á vettvangi Evrópusambandsins hvort til þess kunni að koma.

Þessi ummæli Margrétar eru í samræmi við ábendingar frá öðrum lögfróðum aðilum sem meðal annars hafa borist til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. EES-samningurinn hefur skilað okkur miklu, en á sama tíma stöndum við frammi fyrir því sama og ríki Evrópusambandsins: Sífellt háværari kröfum frá Brussel um aukið valdframsal. Ríki Evrópusambandsins eru farin að spyrna við fótum og benda á að krafan um valdframsal sem nú eigi sér stað sé í litlu samræmi við þá aðildarsamninga sem þau undirrituðu á sínum tíma. Evrópusambandið byggir hins vegar tilveru sína á hinu svokallaða þjóðfrelsi. Til að það nái fram að ganga verður að vera samræmi í löggjöf einstakra landa.

Í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að á undanförnum árum hafi fjölgað jafnt og þétt þeim gerðum sem bíða upptöku í EES-samninginn og er hér fyrst og fremst verið að tala um reglugerðir og tilskipanir. Við erum ekki að tala um neinn smáfjölda. Árið 2012 voru um 500 gerðir teknar upp í EES-samninginn, um 400 í fyrra og um síðustu mánaðamót biðu 580 gerðir eftir upptöku í EES-samninginn.

Spurningin er þessi: Ætlum við að gera nauðsynlegar breytingar á íslensku stjórnarskránni til að tryggja virkni EES-samningsins? Ætlum við að loka augunum og brjóta stjórnarskrána með innleiðingu reglugerða sem eru þegar farnar að reyna mjög á hana? Eða ætlum við að leita annarra leiða, t.d. með samningum?

Það verður að segjast eins og er að mér finnst ólíklegt að slíkir samningar náist. Evrópusambandið og EES-samningurinn standa og falla með þessu töfraorði, einsleitni. Aðildarríki getur ekki verið með sérsamninga nema í afar takmörkuðum mæli. Slíkt stríðir gegn grundvallarforsendum og tilverugrunni EES og Evrópusambandsins. Eftir stendur spurningin ósvöruð hvernig við ætlum að bregðast við. Svarið liggur ekki fyrir.

Margir benda á, m.a. hér í þingsal, að rétt sé að ganga alla leið og ganga í Evrópusambandið, við séum hvort sem er að innleiða flestar reglugerðir og tilskipanir þess. Ég tel að hagsmunum okkar sé betur borgið utan Evrópusambandsins.

Umræðan hér gengur út á að öll okkar vandamál leysist í einu vetfangi með inngöngu, hagur heimilanna vænkist, halli á ríkissjóði heyri sögunni til, vaxtalækkun sé jafn örugg og að það kemur dagur eftir þennan dag og að brosið fari aldrei af andlitum okkar í hinu nýja sæluríki ESB. Auðvitað er það fjarri lagi. Mikil ólga og óánægja er meðal aðildarríkja Evrópusambandsins með framgöngu þess. Aðild hefur ekki tryggt betri lífskjör í mörgum aðildarríkjum. Vextir eru misjafnir í ríkjunum og nokkur þeirra hafa neyðst til að leita í neyðarsjóði Evrópusambandsins til að halda sér á floti.

Félagslegur ójöfnuður hefur aukist til muna innan Evrópusambandsins og ógnar orðið sambandinu sem heildar. Mikið fylgi er við úrsögn úr sambandinu innan margra ríkja, m.a. í Bretlandi. Slíkt gæti ógnað tilveru Evrópusambandsins. Ráðamenn þess eru jafnvel farnir að tala um að því verði ekki bjargað nema með stofnun sambandsríkis Evrópu. Ríki Evrópu geta ekki lengur verið í fjarbúð þar sem hinir stóru verða að taka á sig endalausar fjárhagslegar skuldbindingar hinna minni. Það er allt eða ekki. Sambandsríki Evrópu blasir við á næstu árum. Við slíkar aðstæður get ég ekki mælt með aðild að Evrópusambandinu.

Að því sögðu má vel vera að ég skipti um skoðun eftir fimm eða tíu ár, en fyrst verð ég að sjá hvert sambandið stefnir. Það er hin eina ábyrga afstaða. Sem betur fer er meiri hluti landsmanna sammála mér í því.

Að því sögðu verður umræðan að undanförnu, innan þings og utan, furðuleg. Krafa er um þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna. Krafa er um að stjórnvöld setjist að samningaborðinu og geri samning, einungis til að fella hann síðan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Krafa er um að hæstv. ráðherrar Sigmundur Davíð, Bjarni Benediktsson og Gunnar Bragi setjist að samningaborðinu með stækkunarstjóra Evrópusambandsins og segi: Við erum komnir til að semja um aðild að ESB, herra Füle. Við erum reyndar andvígir aðild og mikill meiri hluti þjóðarinnar líka en við viljum samt sjá hvernig samningurinn lítur út. Hvernig samningaviðræður yrðu það? Stjórnarflokkarnir voru kosnir meðal annars vegna stefnu þeirra í Evrópumálum.

Þingsályktunartillaga um að draga umsóknina að ESB til baka hefur sætt mikilli gagnrýni. Ég hef sagt að nauðsynlegt sé að ná eins mikilli sátt um málið og hægt er. Sjálfur tel ég rétt að skoða til dæmis málamiðlunartillögu Vinstri grænna. Ég er ekki að segja að hún verði ofan á en mér finnst sjálfsagt að skoða hana. Þetta er mál sem við getum ekki haft hangandi yfir okkur mikið lengur. Það eru stór og mikil mál að detta hér inn á næstu dögum og vikum sem varða heimilin í landinu með beinum og afgerandi hætti. Við verðum að gefa okkur góðan tíma til að ræða þau mál í þaula. Við þurfum því að finna sáttaleið sem flestir geta sætt sig við í Evrópusambandsmálinu og snúa okkur að öðru.

Aðeins varðandi málefni Úkraínu. Þau hafa komið til umræðu í dag, enda full ástæða til að hafa áhyggjur af þróun mála þar. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með viðbrögð vestrænna ríkja, enn sem komið er a.m.k. Ljóst er að Rússar láta sér ekki segjast og hættan er sú að um frekari útþenslu þeirra verði að ræða. Rússar eru fyrirferðarmiklir í ýmsum ríkjum í kringum Úkraínu og hætta er á að þeir láti ekki staðar numið hér heldur snúi sé að öðrum ríkjum til að svara kalli einstakra hópa þar um sameiningu.

Hvaða áhrif mun þetta mál síðan hafa á málefni norðurslóða þar sem fjölmörg mál eru óútkljáð? Ljóst verður að við verðum að hafa skýra afstöðu þegar kemur að Rússum. Fagna ég yfirlýsingum utanríkisráðherra þar um.

Tvær ályktanir um málefni Úkraínu verða lagðar fram á fundi Evrópuráðsins í næsta mánuði. Hef ég sett nafn mitt á þær báðar. Þess ber að geta að hlutverk ráðsins er ekki síst að vinna að mannréttindum og lýðræðisumbótum í aðildarríkjunum.

Í ályktun sem danski þingmaðurinn Michael Aastrup Jensen hefur lagt fram er gert ráð fyrir að Rússar verði sviptir atkvæðarétti í ráðinu og í ályktun sem breski þingmaðurinn Robert Walters hefur lagt fram er hvatt til að staða Rússa almennt innan Evrópuráðsins verði endurskoðuð, en þeir hafa verið mjög fyrirferðarmiklir þar. Sjálfur tel ég fullvíst að báðar ályktanirnar verði samþykktar og þær verði lóð á þær vogarskálar að þvinga Rússa til að fara eftir alþjóðasamningum.

Að lokum aðeins varðandi Sýrland. Það má segja að þetta sé týnda stríðið, búið að standa í meira en þrjú ár með skelfilegu mannfalli. Á annað hundrað þúsund manns hafa látið lífið í þeim átökum sem þar eru í gangi. Flóttamenn skipta milljónum. Sýrland hverfur oft í umræðunni og menn gleyma því að átökin þar kosta tugi eða hundruð manna lífið á degi hverjum. Í þeim átökum er enginn sigurvegari og Sýrland er bitbein stórveldanna. Ástandið er skelfilegt. Það er svolítið eins og menn hafi haldið að samkomulag um eyðingu efnavopna mundi leysa öll vandamál Sýrlands. Svo er auðvitað ekki. Við verðum að halda vöku okkar. Alþjóðasamfélagið verður líka að gera það. Við megum ekki gleyma því hörmulega ástandi sem er í Sýrlandi.