143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður sagði réttilega að nauðsynlegt sé að leita sátta í þeirri hörðu deilu sem hefur sprottið upp í kringum tillögu hæstv. utanríkisráðherra um að afturkalla umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Það er mjög auðvelt að ná sátt í því máli. Sáttin liggur í því að hæstv. ríkisstjórn efni þau loforð sem hún gaf fyrir og eftir kosningar. Það er ekki flóknara en það. Ástæðan fyrir þessari deilu er auðvitað sú að þetta kom öllum að óvörum. Þetta var allt annað en það sem ríkisstjórnin hafði sagt. Ef það er svo eins og hv. þingmaður rakti í ræðu sinni að það væri svo margt sem mælti gegn því að núverandi ríkisstjórn gæti lokið samningum þá velti ég því upp og leyfi mér, eins og einn flokksbróðir hv. þingmanns sagði einu sinni, að hugsa upphátt úr ræðustól. Ætli þeim skynsömu mönnum hafi ekki komið það til hugar fyrir kosningar þegar þeir hver um annan þveran gáfu þær yfirlýsingar? Ég þekki þá af allt öðru en greindarskorti. Ég tel því að svarið við þessari spurningu sé já og hv. þingmaður þarf ekki að andsvara því.

Eitt af því sem hv. þingmaður taldi gegn því að hægt væri að ganga í Evrópusambandið var að ljóst væri að hans mati að Evrópa mundi á næstu árum þróast yfir í það að vera sambandsríki. En nú hefur hv. þingmaður sagt það hér í ræðustól að hann hafi lesið þá skýrslu sem Hagfræðistofnun gaf út um daginn og hæstv. ráðherra mælti fyrir fyrir um það bil tveimur vikum. Þar kemur það algjörlega skýrt fram og mjög afdráttarlaust til dæmis hjá Stefáni Má Stefánssyni, prófessor emeritus, að eðli Evrópusambandsins er ekki eðli sambandsríkis og það er ekki að þróast í þá átt. Þvert á móti, með falli stjórnarskrárinnar hafa öll ríkin nema hugsanlega eitt bakkað frá þeirri skoðun. Getur hv. þingmaður ekki fallist á það að þeirri röksemd hafi verið hrundið með þeirri ágætu skýrslu sem hæstv. utanríkisráðherra lagði fyrir þingið, því að þar er það sagt?