143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:14]
Horfa

Karl Garðarsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að taka undir með ýmsum yfirmönnum Evrópusambandsins að það samband mun óhjákvæmilega þróast í þá átt að verða að sambandsríki Evrópu að öllu óbreyttu. Jafn ólík og þessi ríki eru (ÖS: Ekki segir Stefán Már það, þinn ráðgjafi, ekki minn.) innbyrðis gengur þetta samband ekki upp eins og það er í dag. Menn eru farnir að átta sig á því. Auðvitað eru einstök ríki innan Evrópusambandsins mjög óhress með þessa stöðu og hvert stefnir. Það segir sig bara sjálft. Ég er ekkert hissa á því þegar hann vitnar í þjóðþing einstakra ríkja. Auðvitað vilja þau ekki endilega sameinast einhverjum ríkjum sem hentar þeim ekki. Ég er því ekki hissa á þeirri yfirlýsingu hvað það varðar.

Niðurstaðan er samt óhjákvæmileg þegar til lengri tíma er litið. Ef menn vilja halda þessu samstarfi áfram mun það þróast í þá átt.

Varðandi hitt málið um stjórnarskrána og reglugerðir og tilskipanir EES kom fram í ræðu minni að ég hef ekki svar við þeirri spurningu hvaða leið við eigum að fara. Þetta er hins vegar mjög alvarlegt mál sem við þurfum að skoða mjög vel hér innan dyra í þinginu, í nefndum þingsins, vegna þess að við verðum að finna lausn á því. EES-samningurinn hefur nýst okkur mjög vel í gegnum árin, en nú er komin upp sú staða að við þurfum að skoða hvaða leiðir eru færar í framhaldinu. Ég viðurkenni það fúslega að ég hef ekki svarið við þeirri spurningu.