143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:25]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna.

Helsta atriðið sem ég vildi nefna í þessu samhengi er að það er alveg rétt túlkun hjá hv. þingmanni að ég telji að sá núningur sem vissulega er fyrir hendi milli stjórnarskrár og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sé þess eðlis að það þurfi í sumum tilvikum skóhorn til þess að leysa það mál. Ég held hins vegar að við getum leyst þessi mál án þess að ganga í Evrópusambandið. Ég er sannfærður um að slíkar lausnir eru finnanlegar. Ég vil ekki á þessu stigi fullyrða að fyrir höndum séu einhver óleysanleg vandamál í þessu sambandi, hvort sem það eru reglugerðir á sviði fjármála, eftirlits eða annað þess háttar.

Varðandi hins vegar það sem snýr að stjórnarskrárbreytingum þá veit hv. þingmaður auðvitað að ákveðnar stjórnarskrárbreytingar eru í umræðunni núna innan þeirrar nefndar sem forsætisráðherra skipaði í haust til þess að fara yfir stjórnarskrármálin. Þar eru nokkur mál sem sett hafa verið í sérstakan forgang. Þar á meðal er ákvæði eins og hv. þingmaður var að vísa hér til og fleiri hafa gert í umræðunni í dag sem mundi, næði það fram að ganga, heimila takmarkað framsal ríkisvalds á afmörkuðum sviðum til alþjóðlegra stofnana sem Ísland á aðild að.

Ég nefndi fyrr í umræðunni að það mundi trúlega ekki leysa allan vanda, en það gæti leyst hluta þeirra vandamála sem stafa af þeim árekstri sem verður annars vegar milli fullveldisreglunnar eins og hún birtist í íslensku stjórnarskránni og hins vegar þeirra breytinga sem eru að verða á EES-samningnum. Það leysir ekki allan vanda, en þetta er í farvegi. (Forseti hringir.) og mundi að margra mati vera nærtækari lausn á vandanum en ganga í Evrópusambandið.