143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er kannski eins og að túlka Kóraninn, menn eru hér komnir út í orðsifjafræði. Ég tel að svar við spurningu hv. þingmanns sé algjörlega orpið undir skilgreiningu á því hvað sé vel afmarkað svið. Mér fannst hv. þingmaður vera að leiða getum að því að hugsanlega væri hægt að nýta hina skemmri skírn varðandi stjórnarskrárbreytingu með túlkunum í þá veru sem mér fannst hann feta sig í áttina til þannig að breytingin mundi rúma Evrópusambandsaðild svo fremi sem valdframsalið væri mjög vel skilgreint. Það kann vel að vera að það sé hægt.

Af því ég vísaði í Kóraninn vil ég líka vísa í bók bókanna, Biblíuna, og segja: Ég er almennt þeirrar skoðunar — eins og þar stendur — að ræða þín skuli vera já, já og nei, nei. Ég tel að við eigum að takast á um þetta. Svo verður einhver undir. Ég tel að að lokum verði það hv. þm. Birgir Ármannsson en við aðrir berum hinn efri hlut.

Ég held að þessir hlutir þurfi að vera skýrir. Ef skemmri leiðin verður ofan á er sá möguleiki uppi að í framtíðinni kunni aftur að skapast sami árekstur og við erum að glíma við núna millum stjórnarskrár og EES-samningsins. Fjandakornið, frú forseti, afsakið orðbragðið, það gerist í næstu framtíð. Ég held að menn hljóti, ef þeir ráðast í svona breytingar, að gera það með þeim hætti að þær taki yfir þau vandamál sem við erum að glíma við núna og sjáum fyrir.

Það er síðan hv. formanns utanríkismálanefndar að leysa stærra málið sem snýr að því hvernig hann ætlar að geta samrýmt nýjar tilskipanir, sem hann veit, (Forseti hringir.) jafnvel við þessa skemmri skírn, að gengur ekki heldur upp, eins og (Forseti hringir.) hann hefur nánast viðurkennt sjálfur. Er hann þó yfirleitt ekki fús til þess að játa neitt, sá ágæti (Forseti hringir.) maður.