143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[17:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að hv. þm. Birgir Ármannsson þurfi margar ræður til þess að útskýra það sem hann sagði í þessu tiltölulega skamma máli sínu. Ég hef alltaf litið á hann sem eins konar rabbína Sjálfstæðisflokksins þegar kæmi að því að túlka hin óvefengjanlegu mörk stjórnarskrárinnar og standa vörð um hana. Ég minnist þess að ýmsir menn hafa jafnvel skrifað bækur og haft eftir honum ummæli í þá veru að hann telji að stjórnarskráin sé svo heilög og það eigi helst ekki að breyta henni nema svona einu sinni á 100 ára fresti. Svo mikils virði hefur hún verið í hans augum.

Ræðu hv. þingmanns mætti túlka með þeim hætti að það væri í lagi að fara á svig og jafnvel yfir mörkin í kringum stjórnarskrána bara ef það væri gert sjaldan og ekki væri um stórmál að ræða. Þannig mætti túlka ræðu hv. þingmanns. Hann taldi hér upp fjögur, fimm mál sem við væri að glíma núna, gat þess svo að fimm önnur væru í farvatninu. Er þá í lagi, frú forseti, að brjóta stjórnarskrána níu sinnum eða tíu sinnum, eða hvar draga menn mörkin? Ég held að ekki sé hægt að nálgast mál með þessum hætti. Ég held að hv. þingmaður verði bara að fallast á það eins og hann hefur verið að lulla í humáttina að í dag að það er orðið óhjákvæmilegt að breyta stjórnarskránni. Síðan getum við deilt um það hversu langt sú breyting á að ganga.

Hitt er algjörlega ljóst í mínum huga og ég held að það sé líka ljóst í huga hv. þingmanns eftir þær umræður sem við höfum þó átt við sérfræðinga í utanríkismálanefnd að það er komið yfir þann punkt að aðild okkar að EES samræmist stjórnarskránni. Þá verðum við að bregðast við því með einhverjum hætti.

Ég legg svo ekki að jöfnu þær breytingar sem ég tel að þurfi að gera núna út af þeim málum sem við þekkjum og síðan hins vegar varðandi eftirlitsmálin. Það er svo allt (Forseti hringir.) annars eðlis. Þar er um að ræða það sem maður getur kallað þungavigtarframsal (Forseti hringir.) á valdi.