143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði bara að koma upp til þess að leiðrétta fyrri ummæli mín. Í ræðu fyrr í dag gat ég þess að ekki hefði verið um að ræða tillögur sem hefðu lotið að þessu, en það er rétt hjá hv. þingmanni, og gott að rifja það upp að í tillögu sem kom frá meiri hluta utanríkismálanefndar var þetta orðað með þessum hætti. Hins vegar hafði það ekki verið gert með sama hætti í öðrum tillögum sem voru á umræðustigi fyrr, því að eins og við hv. þingmenn vitum tóku þessi mál, stjórnarskrármál, töluvert miklum breytingum allt síðasta kjörtímabil.

Þrátt fyrir að þarna hafi vissulega verið gerð tillaga um að alltaf væri krafist þjóðaratkvæðagreiðslu sem hefði bindandi áhrif, sem er út af fyrir sig ágæt regla ef menn vilja fara þá leið, held ég reyndar að eina tilvikið þar sem gæti reynt á þetta í fyrirsjáanlegri framtíð sé Evrópusambandið. Þó að það sé orðað með almennari hætti í þeim texta sem hv. þingmaður gerði grein fyrir þá held ég að ekki sé um að ræða aðrar stofnanir sem hafa yfirþjóðlegt vald með sama hætti sem reyna kann á á næstu árum.

Það er síðan, eins og við hv. þingmaður gerðum okkur væntanlega báðir grein fyrir, ein af þeim spurningum sem snertir það hvort við viljum vera aðilar að Evrópusambandinu, hvort gera eigi svona stjórnarskrárbreytingu eða ekki. Svona stjórnarskrárbreyting er algjörlega óþörf nema við séum á leiðinni inn í Evrópusambandið.