143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:16]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Afstaða mín til álitamálsins um Evrópusambandið sem hefur verið til umræðu á öðrum fundum Alþingis — ég hef ekki farið inn í Evrópusambandsumræðuna í tengslum við skýrslu um utanríkismál frá hæstv. utanríkisráðherra, enda fær hún svo sem ekki mikið rými í þeirri skýrslu og gefur ekki tilefni til þess að ræða hana sérstaklega hér, því að við höfum gert það á öðrum fundum, ég vildi eyða tímanum í annað, en EES-málið er fyrirferðarmikið í þessu sambandi — afstaða mín hefur verið sú að þjóðin á að ráða afstöðunni til ESB-málsins. Þess vegna er ég fylgjandi því að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram um það hvort halda eigi þeim áfram. Úr því það er ásetningur ríkisstjórnarinnar eða vilji hennar að stöðva þær þá eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það einhvern tímann áður en langt um líður. Ef það er niðurstaðan að halda áfram viðræðum og samningur kæmi síðan sem yrði samþykktur yrði augljóslega að gera stjórnarskrárbreytingu. Ég held að við hv. þingmaður séum sammála um það.

Það hvort svona breyting væri óþörf nema bara vegna hugsanlegrar aðildar að Evrópusambandinu er fullyrðing sem má vel vera að sé rétt, en hún er óvissu háð. Við eigum aðild að ýmsum alþjóðlegum samtökum sem geta líka tekið breytingum og þess vegna fengið á sig annað yfirbragð eða fengið nýjar valdheimildir ef svo ber undir. Þá held ég að það væri einmitt mikilvægt að vera með ákvæði af þessum toga.

Það sem fyrir mér vakir er þetta: Mér finnst að ákvæðin í stjórnarskrá um framsal ríkisvalds verði að vera skýr og ég vil helst ekki að túlkunin á þeim sé sett í hendurnar á einhverjum stjórnskipunarfræðingum, sem getur verið tilviljun hverjir eru frá einum tíma til annars. Ég vil að það vald sé einfaldlega á Alþingi, afdráttarlaust. Þess vegna tel ég að sú leið, (Forseti hringir.) til dæmis með aukinn meiri hluta þegar um minni háttar valdframsal er að ræða (Forseti hringir.) eða takmarkað, sé góð leið (Forseti hringir.) sem við ættum alla vega að geta orðið sammála um.