143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:23]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa skemmtilegu og áhugaverðu umræðu hér í dag. Ekki síst síðasta klukkutímann hafa miklir spekingar rætt stjórnarskrána og hefur verið ánægjulegt að fylgjast með. Ég sá ekki ástæðu til að blanda mér inn í þá umræðu því að hún minnti mann helst á söguna af því í hinni góðu bók þegar þrír menn gengu langan veg og fundu barn sem lagt hafði verið í jötu, slík speki valt af vörum spekinganna þriggja sem töluðu í dag.

Að öllu gamni slepptu hefur umræðan verið um mjög mikilvægt mál sem er stjórnarskráin og mögulegt framsal á valdi. Það er spurning sem við verðum að sjálfsögðu að velta fyrir okkur og svara varðandi EES-samninginn. Það er rétt sem kom fram að við fyrirhuguðum og ætlum að fara í mat og úttekt á því hverju hann hefur skilað okkur og fleiru.

Ég ætla aðeins að fara yfir nokkra punkta og spurningar sem hafa komið fram. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson spurði nokkurra spurninga. Ég held ég hafi svarað tveimur þeirra í andsvari. Meðal annars var spurt um stöðu á fríverslunarviðræðum við Indland. Þær eru því miður stopp og er tvennt sem gerir það að verkum að ekki náðist að klára þær, annars vegar er ágreiningur milli Sviss og Indlands varðandi hugverkaréttindi sem lýtur aðallega að lyfjaiðnaði og slíku, og svo eru kosningar í Indlandi sem settu viðræðurnar í uppnám þannig að þeim varð að fresta fram yfir kosningarnar.

Hv. þingmaður nefndi líka fríverslunarsamning við Kanada. Þar eru Evrópusambandið og Kanadamenn enn þá að ræða útfærslu eða smærri atriði í þeim samningi sem virðist taka lengri tíma en menn ætluðu sér. Ég vonast til þess að fljótlega, og jafnvel í vor, verði hægt að setjast niður með Kanadamönnum til að taka fyrsta snúning á því hvernig staðan er og hvað við getum gert.

Hv. þingmaður nefndi einnig fríverslunarsamninga við Japan. Ég er sammála hv. þingmanni um það og fagna því ef flokkur hans ætlar að leggja fram þingsályktunartillögu um að fara í fríverslunarviðræður við Japan. Það er þannig að Japanir ætla sér að styrkja sendiráð sitt hér á næstu dögum. Við höfum þegar byrjað þreifingar um viðskipti við Japani og þá mögulega fríverslunarsamninga. Ég lít á það sem mikinn stuðning komi þessi þingsályktunartillaga fram og verði hún samþykkt í þinginu. Síðan hyggjumst við að sjálfsögðu ræða við þau enn frekar í haust í Japan.

Hv. þm. Árni Þór Sigurðsson ræddi fimm ríkja fundi nokkurra norðurskautsríkjanna. Ég fór yfir það held ég í andsvari við annan þingmann að því miður eru þeir fundir enn þá haldnir og okkur er ekki hleypt að borðinu þrátt fyrir ítrekuð og hörð mótmæli sem núverandi ríkisstjórn hefur haft uppi líkt og sú fyrri gerði. Þetta er óásættanlegt og við munum áfram reyna að opna augu ríkjanna fyrir því að Ísland eigi svo sannarlega heima á þessum stað.

Ég mundi ekki alveg nafn á náttúruverndarsamtökum þegar við vorum að ræða hvalinn en skammstöfun á þeim samtökum er IUCN. Þetta eru náttúruverndarsamtök sem hafa gefið út lista fyrir Norður-Atlantshafið þar sem langreyður er ekki lengur talin tegund í útrýmingarhættu. Ég var að vitna til þess þegar ég sagði að staða okkar hefði kannski vænkast örlítið.

Ég er algjörlega sammála hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni um Sýrland og hvernig við eða fjölmiðlar í það minnsta, jafnvel við um leið, virðumst gleyma vandamálinu þegar fókusinn fer annað. Þetta er vitanlega ekki gott. Nú er fókusinn allur á Úkraínu og ástandinu þar, en á meðan er áfram hörmungarástand í Sýrlandi og annars staðar þar sem slíkt á sér stað.

Hér hefur verið rætt töluvert um samstöðu um meginþætti utanríkisstefnu. Hv. þm. Birgir Ármannsson nefndi það réttilega og hv. þm. Óttarr Proppé einnig. Það er rétt og ég tek undir það með hv. þm. Birgi Ármannssyni að þegar kemur að vörnum okkar og öryggi erum við aðilar að Atlantshafsbandalaginu og með varnarsamning við Bandaríkin, það skiptir okkur miklu að það sé allt skýrt. Við erum að sjálfsögðu að tala máli Íslands á þeim vettvangi.

Það var áhugaverð umræða sem hv. þm. Óttarr Proppé var með varðandi hagsmuni, hvernig hagsmunir liggja misjafnlega og að þeir séu ekki endilega mældir í krónum og aurum. Ég er sammála hv. þingmanni um að eitt af stærstu hagsmunum Íslands á norðurslóð séu umhverfismál og í alþjóðamálum líka, ekki síst, þar sem við leggjum áherslu á umhverfismál. Þetta snertir okkur svo mikið. Eins leggjum við alltaf mikla áherslu á jafnréttismál í öllu sem við gerum og tölum um.

Rædd hafa verið oft óljós skil á milli innanríkis- og utanríkismála. Það var hv. þm. Helgi Hrafn Jónsson — (Gripið fram í: Gunnarsson.) Gunnarsson, fyrirgefðu, ég ætti að fara að muna það. Þetta er þá í fyrsta sinn sem ég mismæli mig í þessum ræðustól.

Hér var líka rætt töluvert um fríverslun eins og ég nefndi áður.

Varðandi það framferði sem við sjáum hjá Rússum höfum við á öllum okkar fundum þar sem eru rússneskir embættismenn, þar sem við eigum formlega fundi með þeim, mótmælt aðför þeirra gagnvart Úkraínu og við höfum kallað sendiherra Rússlands í sendiráðið o.s.frv. og tekið undir mótmæli annarra og slíkt. Við vonumst að sjálfsögðu til þess að á endanum verði hægt að koma í veg fyrir að þetta ástand vindi upp á sig. Það er gríðarlega mikilvægt og mikilvægt að við beitum okkur þar af fullri ábyrgð, af fullri hörku.

Á sama tíma er mikilvægt að við séum sammála um að við gerum að sjálfsögðu þær kröfur til Úkraínumanna, þeirra sem stjórna þar, að þeir virði líka mannréttindi og réttindi minnihlutahópa og allra íbúa Úkraínu. Af því má ekki gefa neinn afslátt heldur. Svo býðst okkar vonandi að taka þátt í uppbyggingu þessa ágæta lands.

EES-mál hafa líka verið rædd. Við leggjum mikla áherslu á að EES-samningurinn sé virtur. Hér hefur verið töluvert rætt um að núverandi utanríkisráðherra sé mjög viljugur til að innleiða gerðir Evrópusambandsins. Ég tel hins vegar að meðan við erum aðilar að samningi sem þessum beri okkur skylda til að uppfylla hann. Það er eitthvað sem við getum ekki skorast undan, ekki meðan við erum aðilar að samningnum. Við gerum jafnframt kröfu til hins aðilans að samningnum að hann virði samninginn og þau sjónarmið sem í honum eru, til EFTA- eða EES-ríkjanna, þannig að við getum notað þau tæki og tól sem við höfum til að koma skoðunum okkar á framfæri.

Ég gleymi nú örugglega einhverju, en hér hefur verið rætt um loftslagsmál. Ég kom inn á það áðan að við erum, og engin áform uppi um að hverfa úr því, í samstarfi við Evrópusambandið þegar kemur að loftslagsmálum.

Búið að ræða norðurslóðir og áhugaverð hugmynd kom fram hjá hv. þm. Haraldi Einarssyni um eftirlitsstofnun með kolefnislosun. Það er mjög áhugaverð hugmynd sem við hljótum að velta fyrir okkur því að Ísland getur áfram verið í fararbroddi í umræðu um umhverfisvernd og verndun lífríkis.

Hv. þm. Karl Garðarsson nefndi orðið fjarbúð í tengslum við Evrópusambandið. Það er nýtt í mín eyrum að tengja eða nota það orð um ákveðin ríki eða sum ríki Evrópusambandsins gagnvart þeim sterku, mögulega, eða gagnvart valdinu í Brussel, en þetta er ágætis samlíking að mörgu leyti. Ég tek undir það sem kom fram hjá hv. þingmanni og ég hef sagt það úr þessum ræðustól að ég held að mikilvægt sé að við skoðum þær tillögur sem hafa komið fram og eru í utanríkismálanefnd núna varðandi Evrópusambandsmálin.

Hv. þm. Björn Leví … (Gripið fram í: Gunnarsson) Gunnarsson — þeir eru flestir Gunnarssynir hér — ræddi, og mér fannst það mjög skemmtileg umræða, hvernig við getum nýtt lýðræðið og hvaða merkingu við setjum í rauninni í það og kosningar og þá dýrmætu eign, ef það má orða þannig, sem við höldum á. Þetta er eitthvað sem við þurfum að hugsa vandlega um.

Að lokum vil ég þakka fyrir þessa umræðu. Þetta hefur að mínu viti verið mjög málefnaleg umræða um skýrsluna. Menn hafa komið inn á flesta þætti hennar og vil ég þakka fyrir það. Ég hlakka til að eiga áfram gott samstarf við utanríkismálanefnd og Alþingi um utanríkismál.