143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

utanríkis- og alþjóðamál.

418. mál
[18:33]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Takk kærlega fyrir umræðuna. Þetta er búið að vera mjög gaman og gaman að koma í pontu og prófa það aðeins. Ég mæli í rauninni bara með því að við prófum þetta í alvöru, prófum að hafa smálýðræði í þessu máli. Við lærum á því. Við breytumst til hins betra af því við lærum á því. Það væri gaman að sjá það jafnvel rafrænt og eins hefðbundið, eða bara rafrænt. Það væri rosalega spennandi, alla vega fyndist mér það.

Í kjölfar umræðunnar var Helgi Hrafn að tala um hvernig innanríkis- og utanríkishugsunin hyrfi í internetheimum og þá datt manni í hug að það væri kannski þess vert að hafa internetmálaráðherra. Væri það ekki gaman? Mér fyndist það rosalega gott.

Í kjölfar þess að prófa lýðræðið í alvöru, sama hvernig niðurstaðan yrði, þetta er náttúrlega einstakt mál, þá hyrfi ómöguleikinn sem menn hafa verið að tala um. Samninganefndin, sem færi eða færi ekki ef það yrði niðurstaðan, hefði lýðræðislegan stuðning og þyrfti ekki endilega einhvern ríkisstjórnarstuðning. Þá væri enginn ómöguleiki sem við þyrftum að tala um. Mér finnst líka áhugavert að benda á afleiðingu þess að prófa lýðræðið fyrir alvöru.