143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

norrænt samstarf 2013.

370. mál
[18:58]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég fjalla hér um skýrslu Íslandsdeildar Norðurlandaráðs um norrænt samstarf fyrir árið 2013.

Það er þá helst til að taka að helstu málefnin sem voru til umfjöllunar í Norðurlandaráði fyrir árið 2013 voru utanríkis-, varnar- og öryggismál, samfélagsöryggi, stjórnsýsluhindranir og nýting náttúruauðlinda. Norðmenn fóru með formennsku á árinu 2013 og var forseti ráðsins Marit Nybakk.

Utanríkis-, varnar- og öryggismál og samfélagsöryggi voru til umfjöllunar á vorþingi Norðurlandaráðs í apríl og á hringborðsráðstefnu Norðurlandaráðs og norræna varnarmálasamstarfsins NORDEFCO í september.

Stjórnsýsluhindranir voru til umfjöllunar á vorþingi í apríl, á Norðurlandaráðsþingi í október og á desemberfundi forsætisnefndar.

Nýting náttúruauðlinda var til umfjöllunar m.a. á Norðurlandaráðsþingi í október á norræna leiðtogafundinum og í umræðum um alþjóðlegt samstarf.

Umhverfis- og náttúruauðlindanefnd fjallaði á árinu um svör Norrænu ráðherranefndarinnar við tilmælum Norðurlandaráðs frá árinu 2011 um norrænt átak til að leysa deilur um makrílveiðar. Ráðherranefndin taldi að afskrifa mætti tilmæli þar að lútandi en umhverfis- og náttúruauðlindanefnd samþykkti nefndarálit þar sem tveir fyrstu aðgerðaliðir tilmælanna voru afskrifaðir en þeim þriðja viðhaldið. Var ákveðið nefndin léti vinna greinargerð um efnisatriði þriðja liðarins sem er umsjón uppsjávartegunda í Norður-Atlantshafi og vinna að nýrri tillögu sem stuðlaði að langtíma sjálfbærri lausn í þeim efnum.

Starfsemi Norðurlandaráðs skiptist í nefndastarf. Helstu nefndir eru forsætisnefnd, mennta- og menningarmálanefnd, efnahags- og viðskiptanefnd, umhverfis- og náttúruauðlindanefnd, velferðarnefnd, borgara- og neytendanefnd. Síðan eru eftirlitsnefnd og kjörnefnd. Forsætisnefnd hefur æðsta ákvörðunarvald milli þingfunda ráðsins og getur tekið ákvarðanir fyrir hönd þess. Hún stýrir auk þess og samræmir starf nefnda Norðurlandaráðs og ber ábyrgð á heildrænum pólitískum og stjórnsýslulegum áherslum, utanríkis- og varnarmálum, og gerir framkvæmda- og fjárhagsáætlanir ráðsins. Fulltrúar í forsætisnefnd eru Höskuldur Þórhallsson og Helgi Hjörvar.

Á janúarfundi forsætisnefndar á árinu 2013 var afgreidd úr nefndinni tillaga um aukið norrænt samstarf gegn tölvuógnum og stafrænum árásum. Það er eitt af því sem menn velta töluvert fyrir sér í dag hvernig verjast megi þeirri ógn. Er hún m.a. talin geta valdið því að samfélög fari hreinlega um koll á stuttum tíma.

Forsætisnefnd afgreiddi einnig úr nefnd tillögu um að haldnar yrðu hringborðsumræður um varnar- og öryggismál á Norðurlöndum þar sem til yrði boðið norrænum ráðherrum, formönnum þeirra fastanefnda þeirra þjóðþinga sem fara með varnarmál, norrænum varnarmálaforingjum og fulltrúum NORDEFCO, norræna varnarmálasamstarfsins.

Þá hélt hélt forsætisnefnd áfram umfjöllun sinni um stjórnsýsluhindranir og afgreiddi í desember nefndarálit um tillögu norrænu ráðherranefndarinnar um afnám stjórnsýsluhindrana fyrir tímabilið 2014–2017.

Fulltrúi mennta- og menningarmálanefndar fyrir Íslands hönd er Valgerður Gunnarsdóttir. Mennta- og menningarmálanefnd fer með málefni menningarkennslu og menntunar. Þar er m.a. fjallað um almenna menningu og listir í norrænum þjóðlöndum og á alþjóðavísu, fjölbreytileg Norðurlönd, kvikmyndir og fjölmiðla, tungumál, íþróttir, norrænu félögin og frjáls félagasamtök, barna- og unglingamenningu, grunn- og framhaldsskóla, menntunarframboð á Norðurlöndum, almenningsfræðslu og fullorðinsfræðslu, og símenntun.

Í efnahags- og viðskiptanefnd er Steingrímur J. Sigfússon fulltrúi okkar. Þar er fjallað um efnahagsumhverfið, framleiðslu og verslun, þar með talið frelsi á markaði og atvinnumarkaði á Norðurlöndum. Hún fjallar m.a. um atvinnulíf og iðnað, innri markað, frjálsa för fólks, afnám stjórnsýsluhindrana, viðskipti, svæða- og byggðaþróunarstyrki, atvinnumál og vinnumarkað, vinnuumhverfi og innviði og samgöngur.

Í umhverfis- og náttúruauðlindanefnd er fulltrúi Íslands Róbert Marshall. Þar er fjallað um umhverfis- og náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda innan landbúnaðar, fiskveiða og skógræktar. Enn fremur vinnur nefndin að orku- og samgöngustefnu í samstarfi við atvinnumálanefndina. Nefndin vinnur jafnt að norrænum og alþjóðlegum úrlausnarefnum. Enn fremur tekur nefndin upp mál við ESB á ofangreindum sviðum sem eru mikilvæg fyrir Norðurlönd. Nefndin fjallar um efni á borð við endurnýjanlega orku og norrænan raforkumarkað, loftslagsbreytingar og aðgerðir til að minnka losun skaðlegra gróðurhúsalofttegunda, kjarnorkuöryggi, fiskveiðistjórnun, landbúnaðarstefnu ESB, matvælaframleiðslu og matvælaöryggi, stjórnun stórra rándýrastofna á Norðurlöndum, verndun líffræðilegs fjölbreytileika, siglingaöryggi og umhverfisvernd á norðurslóðum.

Velferðarnefnd fjallar um hið norræna velferðarlíkan, velferð, heilbrigðis- og félagsmálastefnu. Hún fjallar um velferðar- og tryggingamál, félagsþjónustu og heilbrigðismál, málefni fatlaðra, bygginga- og húsnæðismál, fjölskyldumál, börn og unglinga, fíkniefni, áfengi og annan ofneysluvanda. Fulltrúi okkar þar er Jóhanna María Sigmundsdóttir.

Í borgara- og neytendanefnd situr Elín Hirst fyrir Íslands hönd. Þar er fjallað um málefni sem snerta réttindi borgara og neytenda auk meginþátta sem snerta lýðræði, mannréttindi, jafnrétti o.fl. og tengjast starfsvettvangi hennar. Nefndin fjallar um lýðræði, mannréttindi, réttindi borgaranna, jafnrétti, neytendamál, matvælaöryggi, baráttu gegn glæpum, þar á meðal alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkastarfsemi, löggjöf, innflytjendur og flóttafólk, samstarf gegn kynþáttafordómum og aukið norrænt samstarf á sviði neytendamála.

Tvær aðrar nefndir eru innan vébanda Norðurlandaráðs og það er eftirlitsnefnd, sem fyrir hönd þingsins fylgist með þeirri starfsemi sem er fjármögnuð úr sameiginlegum sjóðum Norðurlanda. Nefndin hefur einnig umsjón með málefnum sem snerta túlkun samninga um norræna samvinnu, vinnutilhögun Norðurlandaráðs og önnur innri málefni. Fulltrúi í þeirri nefnd er Valgerður Gunnarsdóttir.

Að lokum er það kjörnefndin, sem undirbýr og gerir tillögur að kjöri sem fram fer á þingfundum og aukakosningum í forsætisnefnd. Þar situr Steingrímur J. Sigfússon.

Norðurlandaráð fundaði í þrígang á árinu 2013; í janúar, sá fundur haldinn í Reykjavík, í apríl var haldinn fundur í Stokkhólmi og í september fundaði Norðurlandaráð í Þórshöfn. Það sem er hápunktur starfsins er Norðurlandaráðsþingið sem að þessu sinni fyrir árið 2013 var hið 65. og var haldið í Ósló. Það þing hófst með leiðtogafundi norrænna forsætisráðherra og leiðtoga landsstjórna á Norðurlöndum með þingmönnum Norðurlandaráðs sem að þessu sinni fjallaði um framtíðarsýn í norrænu samstarfi með hliðsjón af því hvernig Norðurlöndin koma til móts við ungmenni samtímans og því hvort norræn samfélagsgerð framtíðarinnar verði traust og sjálfbær. Þar tóku allir forsætisráðherrar Norðurlanda til máls og gerðu grein fyrir þeirra sýn hvað það varðar.

Ísland hefur formennsku í norrænu ráðherranefndinni eins og hæstv. velferðarráðherra Eygló Harðardóttir hefur kynnt og hún er samstarfsráðherra Norðurlanda. Í framhaldi af leiðtogafundinum kynnti hæstv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formennskuáætlun Íslands í norrænu ráðherranefndinni og ber hún yfirskriftina Gróska og lífskraftur. Í henni er lögð áhersla á þrjú meginverkefni: Það fyrsta er Norræna lífhagkerfið sem sameinar áherslur á grænan hagvöxt og sjálfbæra þróun. Annað verkefnið er Norræna velferðarvaktin þar sem fjallað er um viðnámsþrótt velferðarkerfisins í kreppuástandi. Þar verða velferðarvísar þróaðir og hugað að samstarfi í heilbrigðismálum og haldnar ráðstefnur til að mynda um fjölskyldustefnur og velferð barna á Norðurlöndum og stöðu kynjanna á norðurslóðum. Þriðja meginverkefnið er Norræni spilunarlistinn sem snýst um að virkja frumleika og sköpunarkraft sem auðlind og menningarverðmæti.

Á þingi Norðurlandaráðs eru auk þess veitt verðlaun Norðurlandaráðs og það eru verðlaun fyrir bókmenntir, það eru sem sagt bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, tónlistarverðlaun, náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs, kvikmyndaverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, sem voru veitt í fyrsta skipti fyrir árið 2013. Hægt er að sjá hverjir hlutu þessi verðlaun, en mig langar aðeins til þess að nefna verðlaunin sem voru veitt, þ.e. náttúru- og umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs sem vöktu mína athygli þarna. Það er Selina Juul sem hlaut þau og helsta baráttumál hennar er að koma í veg fyrir þá gríðarlega miklu sóun sem á sér stað á mat. Hún kynnti það afskaplega vel hvernig hún endurnýtir, hvernig hún breiðir út þann boðskap að í hinum vestræna heimi er verið að henda að óþörfu gríðarlegu magni af mat sem við gætum svo sannarlega nýtt okkur.

Í lokin langar mig til þess að koma aðeins inn á starfsemi Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. Íslandsdeildin fundaði þrettán sinnum á árinu.

Deildin úthlutaði fréttamannastyrkjum í apríl og hafði hún til umfjöllunar ýmis málefni að eigin frumkvæði sem hún fór síðan áfram með til Norðurlandaráðs. Síðan fjallar hún um það sem rætt er á fundum Norðurlandaráðs. Meðal annars hefur verið fjallað um Endurmenntunarstofnun norrænna blaðamanna í Árósum, Norræna sumarháskólann, um Norræna félagið, stjórnsýsluhindranir, Norræna eldfjallasetrið og síðan formennskuáætlun Norðurlandaráðs.