143. löggjafarþing — 78. fundur,  20. mars 2014.

Fríverslunarsamtök Evrópu og Evrópska efnahagssvæðið.

343. mál
[19:43]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég geri stuttlega grein fyrir skýrslu Íslandsdeildar þingmannanefnda EFTA og EES fyrir árið 2013. Í fjarveru formanns nefndarinnar, hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, tek ég að mér þetta hlutverk sem varaformaður þessara nefnda.

Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar, eins og glöggt kom fram hér fyrr í dag í umræðum um skýrslu utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Það má segja að með aðildinni að EES njóti Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og önnur Evrópuríki, þ.e. aðildarríki Evrópusambandsins og þau EFTA-ríki sem eru aðilar að EES-samningnum sem eru auk Íslands Noregur og Liechtenstein, og þar með um 500 milljóna manna markaður. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp öflugt net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki.

Í umfjöllun þingmannanefnda EFTA og EES um EES-samninginn og rekstur hans var sjónum einkum beint að tveimur þáttum á árinu 2013. Í fyrsta lagi var fjallað um upptöku nýrra ESB-gerða í EES-samninginn og innleiðingu þeirra í EES/EFTA-ríkjunum. Of algengt er að EES/EFTA-ríkin standi ekki við tímamörk EES-samningsins sem kveða á um að ekki skuli líða meira en sex mánuðir frá því að ákvörðun er tekin um að taka gerð upp í EES-samninginn, með svokölluðum stjórnskipulegum fyrirvara, þar til fyrirvaranum hefur verið aflétt. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur ítrekað þrýst á EES/EFTA-ríkin þegar of langt hefur liðið frá því að gerðir taka gildi innan ESB þar til hægt er að gera það hjá EES/EFTA-ríkjunum. ESA hefur því höfðað fleiri mál fyrir EFTA-dómstólnum á árinu 2013 vegna dráttar á innleiðingu en áður eru dæmi um. Í öðru lagi var síðan sérstaklega fjallað um réttindi borgara innan ESB og EES í sérstakri skýrslu og ályktun.

Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA að venju. EFTA hefur verið í fararbroddi á heimsvísu í gerð fríverslunarsamninga sem eru í gildi. Þeir eru nú um 25 talsins og taka til 36 ríkja. Engin ríkjasamtök, að ESB undanskildu, hafa byggt upp eins víðtækt net fríverslunarsamninga. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga EFTA og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga. Fríverslunarviðræður standa nú yfir við meðal annars efnahagsleg stórveldi eins og tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstans — og Indlands sem hæstv. utanríkisráðherra gerði grein fyrir í dag í umræðunum að eru að einhverju leyti á ís. Auk þess standa yfir viðræður við Indónesíu, Víetnam, Malasíu, Tæland, Alsír, Hondúras og Gvatemala.

Af fleiri málum sem voru á dagskrá þingmannanefnda EFTA og EES má nefna makríldeiluna, málefni norðurslóða, loftslags- og orkumál, samgöngustefnu ESB, framtíð EES og samband ESB við evrópsk örríki og Sviss, og loks þinglegt eftirlit með Europol og Eurojust og mikilvægi þess að þjóðþing EFTA-ríkjanna séu þátttakendur í þeirri vinnu.

Á árinu 2013 var starfsemi þessara nefnda með hefðbundnum hætti. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar tvisvar sinnum í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherrum EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum og stofnunum í Kostaríka og Panama til að styðja við gerð fríverslunarsamninga EFTA við ríkin tvö. Framkvæmdastjórnin átti einnig fundi með þingnefndum og ráðuneytum í Króatíu í tilefni af inngöngu Króatíu í EES.

Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Fyrri fundurinn sem haldinn var í maí var ekki sóttur af hálfu Alþingis enda hafði þing ekki komið saman að afloknum kosningum og kosið nýja Íslandsdeild.

Í skýrslu Íslandsdeildarinnar, sem er á þskj. 640, er síðan að finna ágætt yfirlit yfir einstaka fundi þingmannanefndar EFTA, bæði heimsóknir til þriðju ríkja eins og Kostaríka og Panama í janúar 2013 og hefðbundna fundi þingmannanefndar EFTA og ráðherra á miðju ári 2013, fundi þingmannanefndar EES í Liechtenstein í október, heimsókn til Zagreb í Króatíu í októberlok og sömuleiðis fundi þingmannanefndar EFTA í Genf og Brussel í nóvember.

Á árinu 2013 samþykkti þingmannanefnd EES nokkrar ályktanir, ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2012 sem var samþykkt í Brussel í maí 2013, ályktun um framtíð EES og samband ESB við evrópsk örríki og Sviss sem var líka samþykkt í Brussel í maí 2013, ályktun um samgöngustefnu innan EES sem var enn fremur samþykkt í Brussel í maí 2013, ályktun um málefni norðurslóða sem var samþykkt í Vaduz í Liechtenstein í október 2013 og ályktun um réttindi borgara innan ESB og EES sem var líka samþykkt í Vaduz í október 2013.

Þingmannanefnd EFTA samþykkti á árinu tvær ályktanir, annars vegar um þinglegt eftirlit með Europol og Eurojust og mikilvægi þess að þjóðþing EFTA-ríkjanna séu þátttakendur í þeirri vinnu sem var samþykkt á fundi í Þrándheimi í júní sl. og ályktun um grænbók um loftslag og orku 2030 sem var samþykkt í nóvember sl.

Það er rétt að taka fram að þingmannanefndir EFTA og EES eru í raun og veru tvær þingmannanefndir þó að Íslandsdeildin fyrir þær báðar séu skipaðar sömu þingmönnum og það á einnig við um önnur aðildarríki. Aðildarríkin með EFTA eru fjögur, Ísland, Noregur, Sviss og Liechtenstein, en EFTA-ríki sem taka þátt í EES-samningnum eru Ísland, Noregur og Liechtenstein. Sviss kaus á sínum tíma að standa utan EES-samningsins og hefur tvíhliða samskipti og samning við Evrópusambandið.

Á árinu 2013 varð breyting á skipan Íslandsdeildar í kjölfar alþingiskosninga. Fyrri hluta ársins skipuðu Íslandsdeildina þingmennirnir Árni Þór Sigurðsson, sem var formaður, Skúli Helgason sem var varaformaður, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir. Í kjölfar alþingiskosninganna í apríl 2013 var ný Íslandsdeild kosin á fundi á Alþingi 6. júní fyrir allt kjörtímabilið. Nefndina skipa nú hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, formaður, Árni Þór Sigurðsson, varaformaður, Árni Páll Árnason, Vilhjálmur Bjarnason og Willum Þór Þórsson.

Íslandsdeildin var að venju virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Meðal annars tók hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson að sér starf skýrsluhöfundar skýrslu þingmannanefndar EES um málefni norðurslóða. Meðhöfundur hans af hálfu Evrópuþingsins var írski þingmaðurinn Pat the Cope Gallagher og skýrslan var kynnt á fundi í Liechtenstein. Á árinu gegndi Ísland forustu í þingmannanefndum EFTA og EES. Árni Þór Sigurðsson var formaður fram að alþingiskosningum og Guðlaugur Þór Þórðarson tók við formennsku á fundum nefndanna eftir kosningar.

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að hafa framsögu með þessari skýrslu lengri að sinni. Hana er, eins og ég sagði áðan, að finna á þskj. 640 þar sem er nánara yfirlit yfir málefni eða viðfangsefni einstakra funda í nefndinni. Ég vil nota þetta tækifæri í lokin og þakka samstarfsmönnum mínum í Íslandsdeild þingmannanefnda EFTA og EES fyrir góða og trausta samvinnu og sömuleiðis nefndarriturum og starfsmanni nefndarinnar á skrifstofu EFTA í Brussel fyrir aðstoð og ánægjulegt samstarf.